Hestar og knapar láti ljós sitt skína

Endurskinsmerkin eru ætluð bæði fyrir knapa og hest, þar sem …
Endurskinsmerkin eru ætluð bæði fyrir knapa og hest, þar sem þeir geta orðið viðskila.

Fjölmörg dæmi eru þess að næstum hafi verið ekið á hest og knapa, bæði innan og utan hesthúsasvæða. Eitt banaslys hefur orðið með þessum hætti. Til að draga úr hættu á slysum hefur Landssamband hestamannafélaga nú tekið höndum saman við VÍS um að auka sýnileika knapa og hesta í svartasta skammdeginu.

Verkefnið gengur út á að bjóða sérvalin endurskinsmerki fyrir hestamenn. Til að fyllsta öryggis sé gætt er endurskinið ætlað bæði knapa og hesti, þar sem þeir geta orðið viðskila.

Talsverð hætta sé á því að hross fælist þegar bíll kemur óvænt að þeim og viðbrögð þeirra eru þá ófyrirsjáanleg, samkvæmt því sem fram kemur á vef Landssambands hestamannafélaga.

„Þétting byggðar krefst enn frekari árvekni hestamanna gagnvart sýnileika sínum. Hesthús sem áður voru langt frá byggð eru komin í eða við byggðakjarna og öll umferð í nágrenni þeirra þyngst sem því nemur,“ segir Halla Kjartansdóttir hjá öryggisnefnd LH.

Frekari upplýsingar um endurskinsmerki hestamannsins má nálgast á Facebook-síðu LH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert