Bjarni undirritaði með símanum

Bjarni undirritar skjal til Alþingis með rafrænum skilríkjum í símanum.
Bjarni undirritar skjal til Alþingis með rafrænum skilríkjum í símanum.

Mikilvægt skref var í dag stigið í rafrænni stjórnsýslu þegar fjármála- og efnahagsráðherra  nýtti rafræn skilríki til þess að undirrita tilkynningu frá ráðuneytinu til Alþingis. Með þessu var brotið blað í sögu Stjórnarráðsins, en hefð hefur verið fyrir því að slíkar tilkynningar séu undirritaðar af ráðherra með bleki á pappír, segir í frétt á vef ráðuneytisins.

„Með þessu höfum við tekið stefnu í átt að auknum rafrænum samskiptum í stjórnsýslunni, sem hefur í för með sér minni tilkostnað og þar með betri nýtingu á almannafé og sömuleiðis bætta umgengni við umhverfið,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra þegar skjalið var undirritað með rafrænum skilríkjum í síma hans.

Mesta öryggi sem í boði er

Rafræn skilríki eru einu rafrænu auðkennin sem hægt er að nýta til fullgildrar undirritunar. Skilríkin hafa verið í umræðunni undanfarið, ekki síst í ljósi netöryggis. Skilríkin veita mesta öryggi sem í boði er, samkvæmt úttekt sérfræðinga. Öryggið er meðal annars fólgið í því að lykilorð eru hvergi geymd miðlægt.

Allir hafa hag af því að nota rafræn skilríki, þau létta fólki lífið á margan hátt. Til að mynda fækkar lykilorðum, auk þess sem notkun þeirra hefur í för með sér tímasparnað, getur dregið úr fyrirhöfn og auðveldað aðgengi að sífellt fjölbreyttari rafrænni þjónustu. Hér má nefna skattayfirvöld, ýmis fyrirtæki og stofnanir. 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur vakið athygli á mikilvægi öryggis rafrænna skilríkja og hvetur fólk til þess að nýta þau. Rafræn skilríki eru fáanleg á debetkortum og nýlega var farið að gefa þau út í farsímum, sem gerir notkunina einfaldari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert