Íslendingar áfram í gæsluvarðhaldi

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. AFP

Héraðsdómur í Kaupmannahöfn hefur úrskurðað að þrír Íslendingar og einn Pólverji, sem ákærðir eru fyrir fíkniefnasmygl og hegningarlagabrot, skuli sitja í áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur verður kveðinn upp í málinu. Þetta lá fyrir eftir fyrirtöku málsins í gær.

Mennirnir voru handteknir í fyrra í tengslum við rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn, í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir voru í nóvember sl. ákærðir fyrir að hafa ætlað að smygla kókaíni til Íslands sem stóð til að selja. Þá fundust rúm 11 kíló af e-töflum í íbúð eins Íslendingsins í Kaupmannahöfn, en einnig stóð til að selja töflurnar að sögn ákæruvaldsins.

Aðalmeðferð í máli mannanna hefst 25. febrúar nk. og er stefnt að henni ljúki 3. apríl.

Samkvæmt upplýsingum frá ákæruvaldinu í Kaupmannahöfn, tók dómarinn það fram að þrátt fyrir að tveir sakborninganna hafi setið á bak við lás og slá í rúmt ár (þegar aðalmeðferðin hefst verða liðnir 15 mánuðir), þá sé sú hætta fyrir hendi að sakborningarnir reyni að komast hjá því að vera sóttir til saka.Mennirnir séu ákærðir fyrir alvarleg brot og þeir eigi yfir höfði sér að vera dæmdir margra ára fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Ákæruvaldið segir að skilyrði fyrir gæsluvarðahaldinu hafi verið uppfyllt samkvæmt dönskum lögum.

Þeir sem hafa verið lengst í haldi lögreglu er pólski karlmaðurinn og Íslendingur sem var handtekinn á sama tíma, en e-töflurnar fundust íbúðinni hans.

Einn Íslendinganna hefur áfrýjað gæsluvarðahaldsúrskurði héraðsdóms til æðri dómstóls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka