Fernanda komin á fast land

Erlenda flutningaskipið Fernanda er komið á fast land í Helguvík en það var dregið þangað frá Njarðvík í dag. Um klukkan 19 í kvöld var skipið svo tekið inn í höfnina á flóði. Vonir standa til að hægt verði að hefjast handa fljótlega við að rífa skipið í brotajárn.

„Það verður hærra flóð í fyrramálið klukkan sjö. Við ætlum að taka aðeins meira frá því og taka það aðeins lengra inn. Við erum að nota þennan náttúruslipp eins og við köllum hann,“ segir Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, í samtali við mbl.is, en fyrirtækið mun sjá um niðurrifið og alla endurvinnslu.

Sú vinna mun að öllum líkindum taka um það bil tvo mánuði. Einar tekur fram að það sem er endurunnið verði flutt út sem hráefni til framleiðslu. 

Eldur kom upp í Fernöndu í lok október þegar skipið var statt út af Vestmannaeyjum. Eftir að áhöfninni var bjargað var skipið dregið til Hafnarfjarðar en út aftur þegar eldurinn blossaði upp á ný. Að lokum var skipið dregið til Grundartanga þar sem olíu og olíumenguðum sjó var dælt úr því. 

Undanfarnar vikur hefur skipið verið staðsett í Njarðvík en að sögn Einars var tíminn nýttur til að losa það af spilliefnum og unnið að því að fá starfsleyfi.

Um 15 manns hafa unnið að aðgerðunum í dag. Þeir nutu m.a. aðstoða hafnsögubátsins Magna í dag en að sögn Einars mun lóðsinn úr Reykjaneshöfn verða mönnum innan handar á morgun.

„Vinna mun hefjast við niðurrifið um leið og við erum sáttir við og búnir að tryggja aðstöðuna í kringum það [skipið]. En þetta hefur allt saman gengið mjög vel enda vanir menn á ferð,“ segir Einar sem vill koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa komið að verkefninu.

„Fernandan er komin á fast land. Nú ætlum við að smokra henni aðeins lengra inn í fyrramálið,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert