Þinghöld opin í „shaken baby“-máli

Opinn dómsalur.
Opinn dómsalur. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að þinghöld skuli vera opin í máli ákæruvaldsins gegn karlmanni á þrítugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa orðið fimm mánaða gamalli dóttur sinni að bana með því að hrista hana. Úrskurðurinn verður kærður til Hæstaréttar.

Bæði réttargæslumaður og verjandi mannsins gerðu þá kröfu við þingfestingu málsins á dögunum að þinghöld yrðu lokuð í málinu. Ríkissaksóknari tók undir kröfuna, en tók fram að það væri ekki til hlífðar manninum heldur til hlífðar móðurinni og vandamönnum hennar.

Dómari málsins var hins vegar á öðru máli og hafnaði kröfunni. Meginreglan er sú að þinghöld skulu háð í heyranda hljóði. Engin regla er um það að þinghöld skuli vera lokuð í ákveðnum málum en ákveðin hefð hefur skapast um að loka þinghöldum í kynferðisbrotamálum. Er það þá til hlífðar brotaþolum.

Í máli þessu er maðurinn ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert