Víðigerði gjaldþrota og staðnum lokað

Víðihlíð og Víðigerði í Húnaþingi vestra eru við þjóðveginn, félagsheimilið …
Víðihlíð og Víðigerði í Húnaþingi vestra eru við þjóðveginn, félagsheimilið til hægri við veginn og Víðigerði aðeins lengra og til vinstri. mbl.is/Mats Wibe Lund

Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands vestra hefur Víðigerði ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið hefur undanfarin ár átt samnefndan veitingaskála við þjóðveginn skammt frá félagsheimilinu Víðihlíð í Húnaþingi vestra.

Þinglýstur eigandi félagsins er Sigurður Hilmar Ólason en á seinni árum hafa eigendaskipti verið nokkur tíð.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er á þessu stigi ekki vitað um neinar eignir í búinu en skiptafundur fer fram hjá skiptastjóra, Einari Sigurjónssyni hdl., þann 26. febrúar nk.

Veitingasölunni á neðri hæðinni í Víðigerði var lokað 1. október sl. en á efri hæðinni var einnig rekið gistihús.

Engin starfsemi hefur verið þar heldur en rekstraraðilar veitingasölunnar, sem ekki eru eigendur hins gjaldþrota félags, fluttu sig um set yfir þjóðveginn og hafa að undanförnu selt mat og aðrar veitingar í Víðihlíð.

Hádegis- og kvöldmatur

„Fólkið í sveitinni vildi ekki missa okkur þannig að við færðum okkur úr stað yfir í félagsheimilið. Þar erum við með hádegis- og kvöldmat og grillum einnig hamborgara ef fólki líst ekki á það sem við bjóðum uppá. Við erum einnig með vísi að sjoppu en stefnum að því að opna formlega í vor og setja upp skilti og svona, þannig að fólk viti betur af okkur,“ segir Guðlaug Jónsdóttir, sem áður sá um veitingarekstur í Víðigerði en hefur nú flutt sig yfir í félagsheimilið eins og áður segir. Opið er í Víðihlíð frá kl. 11 til 14 og síðan eftir kl. 17 og fram á kvöld.

Hún hefur í hyggju að gera umhverfið í Víðihlíð huggulegra í sumar, setja upp útihúsgögn og útbúa betri aðstöðu fyrir ferðamenn sem leið eiga um.

Að sögn Guðlaugar hafa verið uppi hugmyndir um að breyta Víðigerði í gistiheimili, nokkurs konar mótel, en hún segir það eflaust fara eftir því hverjir eignast húsið og hvaða áform nýir eigendur hafa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert