Gæti orðið dýpsta lægð 21. aldar

Trausti Jónsson birti þetta spákort í dag, en hún sýnir …
Trausti Jónsson birti þetta spákort í dag, en hún sýnir veðrið eins og talið er að það verði kl. 18 á aðfangadag.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að vindstrengurinn sem kemur til landsins síðdegis á aðfangadag fylgi einni dýpstu lægð sem sést hafi á Norður-Atlantshafi. Hún geti orðið sú dýpsta það sem af er 21. öldinni.

Trausti segir á blogg-síðu sinni, að tveir vindstrengir muni plaga okkur um jólin ef spár gangi eftir. Annar kemur úr norðri og breiðist frá Grænlandssundi og inn á land að kvöldi Þorláksmessu. Hinn kemur úr suðaustri síðdegis á aðfangadag. Trausti segir að sú lægð sé enn öflugri og gæti orðið sú dýpsta það sem af er 21. öldinni.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir allt benda til að það þurfi að fara a.m.k. hálfa öld aftur í tímann til að finna jafn slæmt jólaveður á Norður- og Austurlandi.

Veðurstofan sendi í gær frá sér viðvörun vegna óveðursins. Spáð er norðaustan stormi og slyddu eða snjókomu á norðvestanverðu landinu síðdegis á morgun. Reiknað er með að vinhraði verði 18-25 m/s. Spáð er norðan hvassviðri eða stormi á aðfangadag og jóladag, með snjókomu á Norður- og Austurlandi og mjög slæmu ferðaveðri.

Vegagerðin beinir því til fólks sem þarf að vera á ferð um Norðurland að nota fyrri hluta dags til ferðalaga. Eftir hádegið fari veður og færð að spillast. Á Vestfjörðum er útlit fyrir slæmt ferðaveður á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina