Versta norðankast um jól í hálfa öld

Jólaspáin fyrir landið norðan- og austavert er ekki góð að …
Jólaspáin fyrir landið norðan- og austavert er ekki góð að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. mbl.is/Styrmir Kári

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáir mjög slæmu norðankasti um landið norðan- og austanvert um jólin. Þetta verði samfellt hríðarveður í 3-4 sólarhringa. Á jóladag megi búast við versta norðankasti í a.m.k. hálfa öld og þ.a.l. megi búast við miklum samgöngutruflunum á Norður- og Austurlandi.

„Það er ljóst að við erum að horfa upp á versta hríðarveður, eða norðankast, sem hefur gert á jóladag á Norður- og Austurlandi í a.m.k. hálfa öld,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að um landið sunnan- og suðvestanvert verði hefðbundin hvöss norðanátt án úrkomu og hita um eða rétt undir frostmarki. Sumstaðar gæti orðið smávægilegur skafrenningur en engin snjókoma.

„Það er ekkert að fara á kaf hér,“ segir Einar um veðrið á Suður- og Suðvesturlandi. 

Líklega dýpsta lægð í N-Atlantshafi á þessari öld

Einar segir að Íslendingar hafi verið tiltölulega heppnir með veður á jóladag; það hafi oft verið meinlítið, kalt og stillt.  

„Síðast þegar það var einhver norðanhríð sem eitthvað kveður að var árið 1963,“ segir Einar, sem starfar fyrir Veðurvaktina og er einnig veðurfræðingur Vegagerðarinnar.

Á aðfangadag sé verið að spá hér lægð, sem er nú á milli Skotlands og Færeyja. Gangi spár eftir verði lægðin óvenju djúp að sögn Einars. „Það er hún sem þessu mun valda yfir jóladagana,“ segir hann.

„Líklega verður þetta dýpsta lægð á Norður-Atlantshafi, að minnsta kosti á þessari öld,“ segir Einar og bætir við að þessi lægð, sem verði um 925 hektópasköl í miðju, stýri jólaveðrinu. „Þetta er jólagrýla þessi lægð.“

Hann tekur fram að lægðin muni grynnast hægt og bítandi, en gert sé ráð fyrir að hún hringsóli djúpt austur af landinu fram á föstudag (27. desember).

„Hún viðheldur hér norðanvindi, eða framrás lofts sem kemur úr norðri og norðaustri, með mikilli snjókomu um tíma, sérstaklega á jóladag. Það gæti reyndar aðeins blotað í þetta - gert þungan snjó - á Austfjörðum á jóladag. Síðan koma inn í þetta drög og bakkar úr norðri sem þessi mikla lægð beinir hingað til okkar svona jafnt og þétt yfir þessa daga.“

Samfellt hríðarveður í 3-4 sólarhringa

Hann tekur fram að lengst af megi búast við stormi, þ.e. þegar vindhraði er yfir 20 metra á sekúndur, á þessu tímabili. „Þegar saman fer svona mikill vindur og ofankoma þá er bara hríðarkóf og sér ekki úr augum,“ segir hann og bætir við að búast megi við mjög mikilli snjókomu, sérstaklega á Norður- Austurlandi. En einnig á Vestfjörðum og suður til Borgarfjarðar, en líklega verði minni ofankoma þar. 

Einar segir að það veki einnig athygli hvað þetta veður mun standa lengi yfir, eða samfellt hríðarveður í um það bil þrjá til fjóra sólarhringa, eða til 27. desember sem fyrr segir.

„Menn skyldu ekki láta koma sér á óvart að það yrðu meiriháttar samgöngutruflanir og erfitt að komast á milli staða, frá miðjum aðfangadegi á Austurlandi og um allt norðan- og austanvert landið frá jóladegi og öðrum degi jóla,“ segir Einar.

Menn nýti daginn í dag til ferðalaga

En hvernig er staðan fram að jólum?

Einar hvetur þá sem vilja komast á milli landshluta fyrir jól að þeir geri það sem fyrst.

„Það er ágætis veður til þess í dag. Strax á morgun þá fer hægt versnandi, sérstaklega á Vesturlandi og utan til á Norðurlandi, þar sem er spáð talsvert mikilli hríð, mikilli ofankomu og lélegu skyggni,“ segir hann. Veðrið verið hins vegar ágætt austur með Suðurlandi og alveg austur á land fram á aðfangadag,“ segir Einar að lokum.

Tilkynning frá Almannavörnum vegna óveðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert