Landsnet með aukinn viðbúnað

Vakt er í stjórnstöð Landsnets allan sólarhringinn og mannskapur til …
Vakt er í stjórnstöð Landsnets allan sólarhringinn og mannskapur til reiðu ef bilar. heidah.com

Landsnet hefur gert sérstakar varúðarráðstafanir til að bregðast við valdi óveðrið truflunum á raforkuflutningum. Guðlaugur Sigurgeirsson, deildarstjóri netrekstrar, sagði að búið að auka við bakvaktir á Austurlandi og setja menn í viðbragðsstöðu fyrir utan reglulega bakvaktir. Einnig hefur verið haft samband við RARIK á Norðurlandi því Landsnet er ekki enn komið með starfsstöð þar. Búið er að fara yfir tækjabúnað svo allt sé til reiðu komi til útkalls.

Guðlaugur sagði að Landsnet fylgist vel með þróun veðursins. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, er sérstakur ráðgjafi Landsnets varðandi veðurfar og fylgist vel með þróun veðursins og veðurspánna.

Guðlaugur sagði að menn hafi mestar áhyggjur af seinniparti aðfangadags og fram eftir jóladegi því þá gangi versta veðrið yfir. Hann sagði mikið álag vegna eldamennsku síðdegis á aðfangadag ekki vera áhyggjuefni í sjálfu sér.

„Við eru alltaf með nóg rafmagn á meðan línurnar haldast uppi,“ sagði Guðlaugur. „Þetta er það lítil aukning miðað við heildarnotkun á rafmagni í landinu að það verður enginn skortur.“ Hann sagði það alltaf vera áhyggjuefni ef veðrið ógnar rafmagnsflutningunum.

Samkvæmt veðurútlitinu í gær taldi Guðlaugur ekki vera mikla hættu á ísingarmyndun á raflínum. „Við höfum aðallega áhyggjur af færðinni og að það geti orðið erfitt að komast um ef eitthvað gerist. Það kemur til með að kyngja niður snjó á Norður- og Austurlandi. Við gerum ekki ráð fyrir sérstökum áföllum vegna roks eða ísingar, miðað við veðurspár núna,“ sagði Guðlaugur í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert