30-35 m/s á Kjalarnesi

Á Kjalarnesi verða hviður 30-35 m/s fram yfir hádegi. Lægðardrag með snjókomu og stormi er væntanlegt úr norðri.

Reikna má með stórhríð og veðurhæð um 20-25 m/s frá því um hádegi á Vestfjörðum, Ströndum, við Breiðafjörð og á utanverðu Snæfellsnesi. Lægir hins vegar og rofar til á Norðurlandi, en hvessir aftur með samfelldri ofankomu síðdegis og þá einnig á Austurlandi, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Lokað er um Eyrarhlíð vegna snjóflóðs.

Vegna snjóflóðahættu er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður, þá er vegurinn um Þverárfjall einnig lokaður þar sem vagn af flutningabíl lokar veginum.

Það er óveður á Kjalarnesi, undir Akrafjalli og við Ingólfsfjall.

Það er hálka á Sandskeiði, hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Þæfingur og óveður er á Mosfellsheiði, ófært og óveður er í Kjósarskarði, hálka eða hálkublettir eru annars víðast hvar á Suðurlandi.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vesturlandi og éljagangur mjög víða. Hálka og stórhríð er á Holtavörðuheiði, þæfingur og skafrenningur er á Bröttubrekku. Óveður er í Staðarsveit.

Á Vestfjörðum er lokað um Eyrarhlíð vegna snjóflóðs, eins er lokað um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ófært um Þröskulda. Snjóþekja og snjókoma er á Hálfdán og Mikladal en snjóþekja og éljagangur á Kleifaheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Gemlufallsheiði og í Súgandafirði. Snjóþekja og skafrenningur er á Flateyrarvegi og varað er við snjóflóðahættu.

Á Norðurlandi er hálka, snjóþekja og snjókoma. Lokað er um Þverárfjall. Mokstur er hafinn á Ólafsfjarðarmúla. Þæfingur er með ströndinni í Dalvík, í Aðaldal og á Víkurskarði.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur en hálkublettir eru með ströndinni í Hvalnes.

Á Suðausturlandi er greiðfært frá Hvalnesi að Mýrdalssandi en hálkublettir þaðan í Steinar.

mbl.is