ESB styðji tillögu Norðmanna

Stjórnvöld á Írlandi vilja að Evrópusambandið styðji tillögu sem norsk stjórnvöld hafa lagt fram um lausn á makríldeilunni. Tillagan gerir ráð fyrir að Íslendingar og Færeyingar fái mun lægri hlutdeild í árlegum makrílkvóta en tillaga framkvæmdastjórnar sambandsins þar sem íslenskum og færeyskum stjórnvöldum hefur verið boðið 11,9%.

Fjallað er um þetta á fréttavef írska dagblaðsins Irish Times. Þar segir að írsk stjórnvöld með Simon Coveney sjávarútvegsráðherra í fararbroddi hafi hvatt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til þess að styðja tillögu Norðmanna um sanngjarna skiptingu makrílkvótans. Ekki hefur hins vegar komið fram hver tillaga norskra stjórnvalda er nákvæmlega. Sjávarútvegsráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, vildi aðspurð ekki upplýsa það í samtali við norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren 23. desember síðastliðinn.

Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins hefur líkt og Írar lagt áherslu á samráð við Norðmenn í makríldeilunni. Skömmu fyrir jól ítrekaði nefndin þá afstöðu sína í skilaboðum til Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins. Það yrðu mistök að semja við Íslendinga og Færeyinga án samráðs við norsk stjórnvöld. Þar var ennfremur lýst áhyggjum af því að Damanaki væri að gefa of mikið eftir í viðræðum við Íslendinga og Færeyinga. Fljótfærni í þeim efnum gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð sjávarútvegs innan sambandsins.

mbl.is