Stór snjóflóð í Syðridal

Norðarverðir Vestfirðir
Norðarverðir Vestfirðir Kort af vef Veðurstofu Íslands

Snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands var á ferðinni í dag í Bolungarvík inn eftir hlíðinni í Syðridal frá Ósi og sá nokkur snjóflóð sem hann telur hafa fallið um svipað leyti og á hrossin á jóladag, en ekki hefur verið skyggni til að sjá fyrr en nú. Snjóflóð hefur fallið innan við Fremri-Ósi, og eru ekki heimildir um stærra flóð á þeim stað. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Flóð úr Mærðarhvilft innar í dalnum er með stærstu flóðum sem hafa sést þar, fór út á Syðradalsvatn, og einnig féll úr giljum 1 og 5 í Hádegisfjalli (talið utan frá). Úr Heiðnafjalli hefur fallið vel yfir ána, á móts við Reiðhjallavirkjun.

Hættustigi hefur verið aflétt á Ísafirði, á Hrauni í Hnífsdal og á Geirastöðum í Syðridal en óvissustigi á N-Vestfjörðum hefur ekki verið aflétt.

„Á norðanverðum Vestfjörðum er óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu en rýmingum hefur verið aflétt. Stöðug snjósöfnun hefur verið til fjalla í hvössum norðlægum áttum undanfarna daga og hafa snjóflóð fallið.

Á Norðurlandi og Austfjörðum hefur einnig snjóað töluvert og hafa snjóflóð fallið m.a. yfir Ólafsfjarðarveg og í Ljósavatnsskarði. Spá gerir ráð fyrir að úrkoma minnki enn frekar aðfaranótt sunnudags en líklegt er að snjóflóðahætta verði áfram mikil í fjalllendi,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Þó Ólafsfjarðarvegur hafi verið opnaður í morgun má búast við að þar geti snjóflóðahætta enn verið til staðar á meðan það gengur á með éljum og skafrenningi til fjalla, segir enn fremur á vef Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert