Kvartað undan íslensku listaverki

Frá New York.
Frá New York. Ljósmynd/David Shankbone

Tekin var ákvörðun nýverið um að reisa háa girðingu í kringum verk „Bear Eats Man“ (Björn étur mann) eftir listakonuna Þórdísi Aðalsteinsdóttur sem sýnt hefur verið í Socrates Sculpture Park í New York í Bandaríkjunum. Ákvörðunin var tekin í kjölfar kvartana frá nokkrum íbúum sem og bloggara sem kallar sig George the Atheist sem lýsir yfir efasemdum um að Þórdís geti talist listamaður og segir verkið á mörkum þess að vera kynferðisofbeldi gegn börnum.

Verkið sýnir bjarnardýr koma aftan að nöktum karlmanni og gera sig líklegt til þess að bíta hann í öxlina. Gagnrýnin hefur einkum byggst á því að óviðeigandi sé að sýna verkið á almannafæri en meðal annars hefur verið bent á að maðurinn sé ekki aðeins nakinn heldur virðist hann örvast kynferðislega vegna aðfara bjarnarins. Áður en girðingin var sett upp var sett upp skilti við innganginn að sýningarsvæðinu þar sem varað var við nekt innan þess.

Forsvarsmenn sýningarinnar hafa sagt að verkinu sé ekki ætlað að vera kynferðislega ögrandi heldur sýna oft á tíðum fjandsamlegt og jafnvel ofbeldisfullt samband manns og náttúru. Þá er því hafnað að girðingin feli í sér ritskoðun enda sé ekki verið að koma í veg fyrir að fólk geti séð verkið. Aðgangur sé eftir sem áður að því en girðingin geri fólki mögulegt að ákveða hvort það berji það augum eða ekki.

Fjallað er um málið meðal annars á vefsíðunni Hyperallergic.com þar sem sjá má mynd af verkinu. Einnig er að finna myndir á bloggsíðu George the Atheist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert