Bono á Búllunni

Bono og Guðni Valur tóku sjómann.
Bono og Guðni Valur tóku sjómann. Mynd/Auðunn Sólberg Valsson

Feðgarnir Guðni Valur og Auðunn Sólberg Valsson hittu Bono, söngvara hljómsveitarinnar U2, á Hamborgarabúllu Tómasar á Geirsgötu um kvöldmatarleytið í kvöld.

Bono var þar ásamt fjölskyldu sinni að snæða hamborgara í kvöldmat. „Hann var mjög viðkunnanlegur maður. Sonur minn hefur lengi verið mikill aðdáandi hans og þetta var því alveg ótrúleg upplifun fyrir hann. Við spjölluðum létt saman og ég sagði honum frá syni mínum. Hann kom þá og talaði við hann og þeir tóku svo bara einn sjómann,“ sagði Auðunn.

Ekki kom til tals hjá þeim hvenær Bono færi af landi brott, en líkt og kunnugt er lenti hann með einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli á fjórða tímanum í gær til þess að verja áramótunum á Íslandi.

Fengu sér hamborgaratilboð

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni Hamborgarabúllunnar var Bono þar fyrr í kvöld ásamt fjölskyldu sinni og umboðsmanni. Var hann að sögn mjög vinalegur og áritaði U2-plakat sem hangir þar uppi á vegg áður en hann renndi niður hamborgaratilboði.


mbl.is