Taldi tólf þúsund súlur í Kolgrafafirði

Síldargangan í Kolgrafafirði hefur dregið að sér gríðarlega fuglamergð.
Síldargangan í Kolgrafafirði hefur dregið að sér gríðarlega fuglamergð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Einar Ólafur Þorleifsson náttúrufræðingur taldi um tólf þúsund súlur við Hraun- og Kolgrafafjörð í gær. Annað eins hefur ekki sést hér á landi. Það hefur ávallt verið mikið fuglalíf á svæðinu en ekkert í líkingu við það sem er í dag, að sögn Einars.

Eins og frægt er orðið eru feiknin öll af síld í Kolgrafafirði en síldargangan hefur dregið að sér gríðarlega fuglamergð. Þúsundir af stórum máfum eru á svæðinu sem og tólf þúsund súlur, ef marka má talningu Einars. 

Hann segir að þetta sé sérstakt að mörgu leyti. Súlan sé að öllu jöfnu farfugl og hverfi af landinu á haustmánuðum. „Síldin hefur nú í nokkur ár í röð safnast saman í stórar torfur á þessu svæði við Grundar- og Kolgrafafjörð og súlunum hefur smám saman verið að fjölga þar,“ bendir Einar á. 

Hann segir að á svæðinu sé alla jafna feikimikið fuglalíf en nú bætist við þessi óvenjumikla síld sem lokki til sín stærri fugla.

Sáu 37 fuglategundir

Einar er mikill fuglaáhugamaður og tók um seinustu helgi þátt í hinni árlegu vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann segir að hann og Hannes Þór Hafsteinsson hafi talið fugla á svæðinu frá Geldinganesi til Grafarvogs og séð hvorki meira né minna en 37 fuglategundir. „Það á eftir að koma í ljós en það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri tegundaflesta talningin í ár,“ segir hann.

Þá sáu þeir félagar einnig nokkrar sjaldgæfar fuglategundir, svo sem sefgoða, fáeina hrossagauka og eina dvergsnípu, sem er skyld hrossagauknum.

<span><br/></span>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert