Hannes Smárason krefst frávísunar

Hannes Smárason
Hannes Smárason mbl.is/Golli

Lögmaður athafnamannsins Hannesar Smárasonar lagði í morgun, við fyrirtöku máls á hendur honum í Héraðsdómi Reykjavíkur, fram bókun þar sem fram kemur að Hannes krefjist þess að málinu verði vísað frá. Vegna anna dómara verður ekki hægt að flytja málið fyrr en í byrjun mars næstkomandi.

Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa 25. apríl 2005 sem stjórnarformaður FL Group, dregið sér af fjármunum FL Group, 2,875 milljarða króna sem hann ráðstafaði til Fons.

Í morgun fór fram fyrirtaka í málinu og kom þá fram sú krafa Hannesar að vísa beri málinu frá. Saksóknarfulltrúi hjá sérstökum saksóknara sagði það geta verið erfitt að flytja málið þar sem mjög takmarkaðar upplýsingar komi fram í bókuninni um málsástæður Hannesar. 

Dómari málsins sagði ekkert annað að gera en flytja málið þó innihaldið virðist efnismikið. Sækjandinn verði hreinleiga að vera tilbúinn að bregðast við ræðu verjanda Hannesar. 

Atvik gerðust árið 2005

Í ákærunni segir að þann 22. apríl 2005 lét Hannes millifæra 46.500.000 Bandaríkjadali af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York í Bandaríkjunum inn á bankareikning FL Group í Kaupþingi banka í Lúxemborg en þann reikning hafði Hannes látið stofna 17. apríl 2005.

Þann 25. apríl 2005 var 45.864.241 Bandaríkjadölum svo skipt yfir í 2,875 milljarða íslenskra króna. Og sama dag var sú upphæð millifærð yfir á bankareikning Fons í sama banka.

Sama dag var fjárhæðinni skipt yfir í 260.889.292 danskar krónur og 375.000.000 danskar krónur svo millifærðar af sama reikningi Fons yfir á bankareikning þáverandi eiganda Sterling Airlines.

Þá segir í ákæru að millifærsla Hannesar hafi verið framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra meðlima í stjórn FL Group.

Í ákæru segir að engu skipti varðandi refsinæmi að fjármunirnir hafi skilað sér aftur til FL Group, en það gerðist meðal annars vegna þrýstings frá þáverandi forstjóra FL Group.

Fons varð að taka lán til að geta endurgreitt Fl Group fjármunina.

Til vara er Hannes ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið FL Group verulegri fjártjónshættu með umræddri millifærslu.

Við fyrirtökuna í morgun upplýsti lögmaður Hannesar um það, að skrifleg staðfesting liggi fyrir frá Kaupþing í Lúxemborg um að engar færslur hafi átt sér stað á umræddum reikningi FL Group, fjármunirnir hafi verið á reikningnum allan tímann.

Frétt mbl.is: Íhugar að krefjast frávísunar

Frétt mbl.is: Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt

Frétt mbl.is: Þriggja milljarða millifærslan

Frétt mbl.is: Staðfestir millifærslu frá FL

Frétt mbl.is: Hannes segist ekki hafa brotið lög

Frétt mbl.is: Tugmilljóna einkaútgjöld á viðskiptamannareikning

Frétt mbl.is: Hannes vísar ásökunum á bug

Frétt Morgunblaðsins: Stjórnendur Icelandair lögðust gegn kaupum á Sterling Airlines

Frétt Morgunblaðsins: Hlutafé aukið um 44 milljarða og fækkað í stjórn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert