Skaða sig með yddarablöðum

Vilborg G. Guðnadóttir geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Barna- og unglingageðdeild …
Vilborg G. Guðnadóttir geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Barna- og unglingageðdeild LSP, BUGL.

Sjálfsskaði er ört vaxandi lýðheilsuvandamál á Vesturlöndum og hefur verið talað um faraldur í Bretlandi.  Mikilvægt er að greina á milli þessa og sjálfsvígstilrauna. Yddarablöð eru algengasta verkfæri íslenskra unglinga sem skaða sjálf sig.

Þetta sagði Vilborg G. Guðnadóttir geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Barna- og unglingageðdeild LSP, BUGL í erindi sem hún hélt í morgun á ráðstefnu BUGL um tilfinningaraskanir barna. 

„Tilkoma netsins, sérstaklega Tumblr-síður, hefur breytt sjálfsskaðalandslaginu,“ sagði Vilborg og talaði í þessu sambandi um smit og tískuáhrif sem tengjast vansældar- eða dauðaáhuga. „Það er mikilvægt að greina á milli sjálfsskaðandi hegðunar og sjálfsvígshegðunar. Sjálfsskaði er leið til að lifa en sjálfsvígstilraun er leið til að deyja.“

Hún sagði að nýjustu tölur sýndu að algengi endurtekins sjálfsskaða væri 10% hjá stúlkum og 6% hjá drengjum. Þessi hegðun væri algengari meðal unglinga sem eru viðkvæmari fyrir vegna félagslegra aðstæðna.

Faraldur í Bretlandi

„Byrjað var að tala um faraldur í sjálfsskaðahegðun í Bretlandi um í kringum árið 2010,“ sagði Vilborg og sagði að 5 - 10% unglinga sem byrja að skaða sig eiga erfitt með að hætta. „Hjá flestum gengur þetta þó yfir af sjálfu sér.“

Hún sagði að enginn einn áhættuþáttur væri líklegri en annar til að unglingur byrjaði að skaða sig. „En þegar fléttast saman álagsþættir eins og álag á heimili eða í skóla, samskiptavandi eða tilfinningalegur óstöðugleiki, þá geta líkurnar aukist.“

Yddarablað algengast

Að sögn Vilborgar er helsta aðferðin við sjálfsskaða að rispa sig eða skera með yddarablaði, hníf eða rakvélarblaði. „Það sem er mest notað hér á Íslandi eru yddarablöð, áður var það rakvélablaðið,“ sagði Vilborg og sagði að skýringin væri líklega breytt rakvélarkaup karlmanna.

Aðrar algengar aðferðir við sjálfsskaða unglinga er t.d. eitrun vegna ofskammts lyfja eða hreinsiefna, að bíta eða naga líkamshluta, slá líkamshlutum (höfði eða hnefa) endurtekið við eitthvað hart, brenna eða stinga sig, klóra/klípa eða kroppa t,.d. gróandi sár, herða að hálsi, neita að nærast eða hoppa eða kasta sér ofan af einhverju háu.

En af hverju gera unglingar þetta? „Tilgangurinn getur verið leið til sjálfshjálpar, að draga úr innri spennu og óróa,“ sagði Vilborg. „Unglingurinn er að senda skilaboð um að eitthvað sé ekki í lagi, hann gæti verið að þessu til að aftengja sig erfiðum eða ruglingslegum hugsunum og tilfinningum. Jafnvel tengja sig inn í raunveruleikann með þessu móti.“

Flestir hætta af sjálfsdáðum

Vilborg sagði að flestir unglingar létu af þessu af sjálfsdáðum, en sumum gæti reynst erfitt að hætta án inngripa. Niðurstöður sumra rannsókna benda til þess að fjölskyldustuðningur, það að styðja foreldra í hlutverki sínu lofi góðu. 

„Margir unglingar, sem glíma við þessa hegðun, telja að þeir þurfi lítið á foreldrum sínum að halda og það getur flækt málin og tafið fyrir meðferð. Ef afstaða meðferðaraðila eða fagfólks styður þessa skoðun unglings getur það flækt málið enn frekar,“ sagði Vilborg. „Gott öryggi og traust á milli unglings og foreldris er lykilatriði í að meðferð skili tilætluðum árangri. Aðstoða þarf unglinginn við að axla ábyrgð á afleiðingum sjálfsskaðans og þegar og ef hann er tilbúinn að reyna aðrar leiðir,“ sagði Vilborg og bætti við að illa gagnaðist að ofvernda eða hunsa. Það sama gilti um beinar og óbeinar ásakanir.

Þurfum að gefa þessu gaum

Að sögn Vilborgar er sjálfsskaðandi hegðun ört vaxandi lýðheilsuvandamál á Vesturöndum. „Þetta veldur vaxandi álagi, streitu, spennu og kostnaðar innan heilbrigðiskerfa m.a. vegna endurtekinna bráðainnlagna. Þá veldur þetta streitu og spennu innan fjölskyldna, unglingasamfélaga og skólakerfa. Þetta er virkilega hlutur sem þarf að gefa gaum að,“ sagði hún.

Sjálfsskaði er ört vaxandi lýðheilsuvandamál á Vesturlöndum.
Sjálfsskaði er ört vaxandi lýðheilsuvandamál á Vesturlöndum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert