Slapp ólétt út úr brennandi íbúð

Eldur kom upp í íbúð í Hraunbæ í nótt.
Eldur kom upp í íbúð í Hraunbæ í nótt. Mynd/Pressphotos.biz

„Líkamlega erum við í lagi en andlega erum við bara í rúst. Íbúðin er ónýt og allt inni í henni er ónýtt. Við stöndum bara á götunni á nærbuxunum,“ segir Sædís Alma Sæbjörnsdóttir, nítján ára stúlka, í samtali við mbl.is, en hún slapp út úr brennandi íbúð í Hraunbæ 30 í nótt.

Eins og greint var frá á mbl.is snemma í morgun kom upp eldur á þriðja tímanum í nótt í íbúð í fjölbýlishúsi í Hraunbæ. „Mamma vakti mig og barnsföður minn og við hlupum fram og beint út. Við héldum að hún mundi koma á eftir okkur en hún fór aftur inn í herbergi því hún hélt að við kæmumst ekki út,“ segir Sædís Alma.

„Kærastinn minn hljóp í gegnum eldinn aftur, inn í herbergið mitt, sem er innsta herbergið í íbúðinni, og náði í hundinn minn og mömmu mína. Hann bjargaði mömmu minni og hundinum mínum.“

Kötturinn gæti hafa rekist í kerti

Auk Sædísar, barnsföðurins og móðurinnar var sjö ára frænka hennar líka í íbúðinni en hún slapp fyrst út. Á Sædís Alma von á barni hinn 10. mars næstkomandi.

Hún segir að líklegast hafi kviknað í íbúðinni út frá kerti sem kisan hennar hafi rekist í. „Því miður dó hún.“

Hún segir að margir vinir og ættingjar hafi haft samband við þau í dag og boðist til að hjálpa. „Svo hringdi í mig maður, sem ég hafði aldrei heyrt áður í, og bauð mér allt fyrir barnið, svo sem barnarúm, skiptiborð, dýnu, barnavagn og barnabílstól. Þetta eyðilagðist allt hjá mér og ég er mjög þakklát fyrir að hann skyldi hringja í mig,“ segir hún.


Sædís Alma slapp út úr brennandi íbúðinni.
Sædís Alma slapp út úr brennandi íbúðinni. Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert