Farþegum til Húsavíkur fjölgar

Flugstöðin á Húsavíkurflugvelli
Flugstöðin á Húsavíkurflugvelli Ljósmynd/Örlygur Hnefill Örlygsson

Rúmlega helmingsaukning var á fjölda flugfarþega um Húsavíkurflugvöll milli áranna 2012 og 2013. Árið 2012 voru farþegar sem fóru um flugvöllinn 6548 talsins en 9831 á árinu 2013. Húsavíkurstofa vinnur nú ásamt Hagsmunasamtökum Húsavíkurflugvallar að kynningaráætlun um áfangastaðinn Húsavík, bæði fyrir flug og skemmtiferðaskip.

 „Írska flugfélagið Ryanair hefur lýst áhuga á beinu flugi inn á Norðurland en hafa ekki treyst sér í aðflugið að  Akureyrarflugvelli. Þeir sjá auðvitað þann fjölda áhugaverðra ferðamannastaða sem hér er að finna; Dettifoss, Ásbyrgi, Húsavík og Mývatn, svo fátt eitt sé nefnt. Staðsetning Húsavíkurflugvallar milli Húsavíkur og Mývatns, tveggja af vinsælustu ferðamannastöðum landsins, er mjög hentug,“ er haft eftir Örlygi Hnefli Örlygssyni, hótelstjóra og formanns Húsavíkurstofu.

„Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna benti á það í vikunni að byggja þyrfti upp fimmta alþjóðlega flugvöllinn á Íslandi til að draga úr notkun flugvallarins í Glasgow sem varaflugvallar. Ég tel rétt í þeim efnum að horfa til Húsavíkurflugvallar.“

Brautin á Húsavíkurflugvelli var 1800 metrar en 1604 metrar voru bundnir með olíuborinni möl árið 1994.

 „Aðstæður til flugs eru með allt öðrum hætti í Aðaldal en í Eyjafirði. Brautina á Húsavíkurflugvelli þarf nauðsynlega að lengja í 2000 til 2200 metra til að geta tekið að sér þetta hlutverk sem varaflugvöllur fyrir Keflavík. Það mun einnig styrkja vægi ferðaþjónustunar á svæðinu til muna að geta boðið upp á flugvöll á Norðurlandi sem getur sinnt millilandaflugi allt árið um kring,“ segir Friðrik Sigurðsson, sveitastjórnarmaður og flugrekstrarfræðingur á Húsavík.

Örlygur og Friðrik telja að flug um Aðaldal væri til þess fallið að styrkja verulega ferðaþjónustuna, bæði í Þingeyjarsýslum sem og á Akureyri, segir í tilkynningu.

mbl.is