Banna framleiðslu hvalabjórs

Umbúðir bjórsins vísa sterkt til innhaldsins.
Umbúðir bjórsins vísa sterkt til innhaldsins.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur ákveðið að banna framleiðslu á svokölluðum hvalabjór þar sem framleiðsla á hvalmjöli uppfyllir ekki skilyrði matvælalaga. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Haft er eftir Helga Helgasyni, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, að niðurstaðan sé sú að allt hráefni sem notað sé til matargerðar eigi að vera samkvæmt matarlöggjöfinni og frá viðurkenndum birgjum. Hann segir að Hvalur sé ekki með starfsleyfi til framleiðslu á mjöli til matvælaiðju og „þar af leiðandi verðum við að stoppa þetta af“, segir Helgi í samtali við RÚV.

Brugghúsið Steðji hugðist setja á markað nýjan hvalabjór síðar í þessum mánuði, en um er að ræða þorrabjór brugghússins í ár.

Brugghúsið fékk alþjóðlega athygli eftir að út spurðist um áform þess að setja á markað svonefndan hvalabjór. Íí bjórinn er notað hvalamjöl og eru umhverfisverndarsamtök afar óhress með þessa nýjung á íslenskum bjórmarkaði.

Dagbjartur Ingvar Arilíusson hjá Steðja sagði í samtali við RÚV að menn hefðu talið að hvalamjölið væri hráefni sem fyrirtækið mætti nota í bruggunina, í ljósi þess að verið væri að neyta hvalaafurða á þorrablótum og hægt væri að kaupa mjölið úti í búð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina