Vörugjöld og tollar mesti vandinn

Mörg dæmi eru um að regluverk frá Evrópusambandið sé innleitt hér á landi í gegnum EES-samninginn með strangari og ítarlegri hætti en þörf er á. Þannig hefur verið til að mynda tilhneiging til þess að miða við lægstu mörk þegar vikmörk er gefið í regluverkinu til að mynda vegna magns ákveðinna efna í matvælum og þannig þrengt að framleiðendum í meira mæli en krafa er gerð um.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Sigríðar Á. Andersen, héraðsdómslögmanns og stjórnarmanns í Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu, á morgunverðarfundi á vegum ráðsins á Hótel Natura í Reykjavík í morgun en þar var rætt um hindranir í viðskiptum á milli Íslands og Bandaríkjanna. Hún benti á að slík ofinnleiðing á regluverki frá Evrópusambandinu færi gjarnan sjálfvirkt fram og án þess að hafðar væru í huga aðstæður á Íslandi.

Tekjur ríkisins af tollum ekki mjög miklar

„Að þessu þarf auðvitað að gæta og heyrir upp á bæði atvinnulífið sjálft að fylgjast með innleiðingunni og láta stjórnvöld vita. Í framhaldinu eiga stjórnvöld auðvitað að grípa inn í,“ sagði Sigríður á fundinum. En það væri ekki aðeins regluverk frá Evrópusambandinu sem skapaði hindranir í viðskiptum heldur væru innlend vörugjöld og tollar aðalvandinn þegar kæmi að viðskiptum við Bandaríkin. Tók hún ýmis dæmi um það.

„Þetta er einfaldlega löggjöf sem Íslendingar geta sjálfir lagfært,“ sagði hún. Kallaði hún eftir því að innlendir tollar væru lagðir af enda væru tekjur ríkisins ekki mjög miklar af þeim eða um 6 milljarðar króna á ári. Til samanburðar væru tekjur ríkisins af efsta stigi virðisaukaskattsins 130 milljarðar króna og tekjur af vörugjöldum 14-15 milljarðar. Tollar væru því takmarkaður tekjuliður fyrir ríkið en skipti miklu til að skapa eðlilegt samkeppnisumhverfi í verslun.

Óskað verði eftir undanþágum tímanlega

„En hvað er til ráða? Ég tel að sameiginlega EES-nefndin hafi verið mjög vannýtt hingað til og það helgast kannski af því að Íslendingar voru eiginlega ekki tilbúnir í þetta Evrópusamstarf þegar EES-samningurinn var undirritaður 1993 af tæknilegum ástæðum. með hliðsjón af mannafla og þekkingu á Evrópurétti og þekkingu á þessu kerfi. Það hefur sem betur fer verið að byggjast upp,“ sagði Sigríður ennfremur.

Þetta hafi verið að breytast og þannig hafi mál tengd EES-samningnum í vaxandi mæli komið inn á borð til að mynda utanríkismálanefndar Alþingis áður en þau fara til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni, sem ákveður hvaða regluverk frá Evrópusambandinu er tekið upp í samninginn, með það að leiðarljósi að reyna að fá undanþágur fyrir Íslendinga en möguleikar á því væru miklir.

Benti hún á Norðmenn hefðu fengið fjölmargar undanþágur í gegnum vinnu sameiginlegu EES-nefndarinnar og Íslendingar þyrftu að nota nefndina betur í þeim efnum en gert hafi verið til þessa. Það væri aftur á ábyrgð fyrirtækja og hagsmunasamtaka að vekja athygli á hagsmunum sem krefjast undanþágu og grípa inn í áður en mál væru afgreidd út úr sameiginlegu EES-nefndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina