Kaupás lækkar vöruverð

mbl.is/Sigurður Bogi

Kaupás ehf., sem rekur matvörukeðjurnar Krónuna, Nóatún og Kjarval, hefur ákveðið að lækka verð á þeim vörum sem félagið annast alfarið sjálft innflutning á. Verðlækkunin kemur til framkvæmda á næstu dögum og verður hún á bilinu 3-5%. Að meðaltali nemur lækkunin tæplega fjórum af hundraði. Verðlækkunin nær til milli 7-800 vara sem seldar eru m.a. undir vörumerkjunum: First Price, Happy Day, Jamie Oliver,Casa Fiesta,Grön Balance, segir í tilkynningu.

„Þessi ákvörðun Kaupáss er tekin í trausti þess að gengi íslensku krónunnar haldist óbreytt. Með henni leggur Kaupás sitt af mörkum til þeirra aðgerða sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa tekið saman höndum um til að efla efnahagslegan stöðugleika, bæta kaupmátt og halda verðbólgu í skefjum,“ segir í tilkynningunni.

Kaupás hefur jafnframt sent birgjum sínum, innflytjendum og innlendum framleiðendum, áskorun um að taka þátt í þessari vegferð og tilkynnt þeim að verðhækkanir frá þeim verði ekki samþykktar nema brýn og vel rökstudd þörf búi að baki, segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is