Engin töfralausn að banna Vítisengla

Vítisenglar.
Vítisenglar. Af vef Europol

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir það enga töfralausn að banna félög sem skilgreind hafa verið sem skipulögð glæpasamtök á borð við Vítisengla og Útlaga. Hins vegar fylgist lögregla markvisst með slíkum samtökum og hafi árangurinn verið eftirtektarverður.

Þetta kom fram í netspjalli með Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra fyrr í dag. Þar svaraði hann spurningum sem sendar voru lögreglunni undanfarna daga. Ein þeirra laut að því hvort ekki mætti hreinlega banna starfsemi glæpasamtaka. „Svarið er það, að heimildin er til staðar í stjórnarskrá, það má banna félögin. Þetta atriði hefur verið skoðað en ekki tekin ákvörðun um að fara út í slíkt.“

Stefán sagði klárt í sínum huga að unnt sé að ráðast í að banna glæpasamtök „en það er engin töfralausn að taka slíkar ákvarðanir því það er ekki nema hluti af þeim sem stunda skipulagða glæpastarfsemi sem gera það innan félaganna.“ 

Hins vegar sagði hann, að eitt af lykilatriðum til að tryggja öryggi almennings sé að fylgjast markvisst með skipulögðum glæpahópum og það hafi verið gert. Ekki aðeins sé hart tekið á brotunum og vel fylgst með félögum slíkra samtaka heldur sé einnig reynt að hindra erlenda kollega þeirra í að koma hingað til lands. „Það skiptir máli og hefur vakið athygli. Önnur lönd hafa tekið upp þessa stefnu, hvort sem það er að okkar fyrirmynd eða ekki. Ég held að það sé í lagi að halda því fram.“

Þá var Stefán spurður um það hvað hann teldi þurfa mikið fjármagn til að reka lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sómasamlega. Stefán sagði embættið fá þrjá milljarða á þessu ári og 1,5 milljarður til viðbótar myndi henta ágætlega „til að gera þetta með fullnægjandi hætti.“

Stefán Eiríksson.
Stefán Eiríksson. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina