Borgin söltuð í hlýindum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Brynjar Gauti

„Okkur fannst hálfgrátlegt að þurfa að salta göturnar en það gekk svo mikið á í morgun að ekki var annað hægt,“ segir Halldór Bragi Ólafsson, hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, en stórvirk vinnutæki voru kölluð út í nótt og í morgun til þess að salta götur höfuðborgarinnar.

Mældist þá lofthiti um fjórar til fimm gráður.

Saltbílar voru kallaðir út skömmu fyrir klukkan fimm í morgun eftir að tilkynnt var um mikla ísingu á götum Reykjavíkur. Hófu fyrstu bílar að bera salt á götur í Árbæ og Breiðholti en þeim var þó fljótlega snúið við aftur eftir að rigna tók í borginni.

Um klukkan níu barst svo aftur tilkynning um talsverða hálkumyndun, bæði frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og starfsmönnum Strætó. Voru þá átta saltbílar ræstir út. Þær götur sem saltaðar höfðu verið fyrr um morguninn þurfti að salta upp á nýtt þar sem rigning hafði skolað burt saltinu.

„Ég keyrði þá aftur um borgina og þá var ástandið mjög víða þannig að maður skautaði eftir götunum. Þá var mælirinn í bílnum að sýna fjórar til fimm gráður,“ segir Halldór Bragi og bætir við að hann skilji vel ef ökumenn hafi rekið upp stór augu er þeir mættu saltbílum á götum borgarinnar í morgun.

Aðspurður segir hann saltbíla ekki vera kallaða út að óþörfu í Reykjavík. „Þeir eru ekki að salta ef þeir telja ekki þörf á því. Þetta eru menn sem eru með margra ára reynslu.“

mbl.is