RÚV biður Austurríkismenn afsökunar

mbl.is/Kristinn

Bjarni Guðmundsson, starfandi útvarpsstjóri RÚV, hefur sent handknattleikssamböndum Austurríkis og Íslands bréf vegna ósæmilegra ummæla sem Björn Bragi Arnarsson, umsjónarmaður EM stofu á RÚV, lét falla í hálfleik í leik Íslands gegn Austurríki í gær. Bjarni biðst afsökunar á ummælunum og segir að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana.

Í bréfinu til Austurríska handknattleikssambandsins, kemur fram að ummælin hafi verið særandi og ósmekkleg. Bjarni segir að málið sé litið afar alvarlegum augum og að það verði tekið á því á viðunandi máta. 

Þá segir að Björn Bragi hafi gert sér grein fyrir mistökum sínum og baðst hann strax afsökunar á ummælunum sínum. 

Bjarni segist vonast til þess að austurríska handknattleikssambandið taki afsökunarbeiðnina gilda. Íslendingar líti á Austurríkismenn og Austurríska handknattleikssambandið sem vini og bandamenn. 

„Ég vona innilega að þessi óheppilegi atburður muni ekki skaða þessa vináttu,“ segir í bréfinu til Austurríska handknattleikssambandsins.

Ummælin sem um ræðir og Björn Bragi lét falla í hálfleik voru eftirfarandi: „Íslenska landsliðið er eins og þýskir nasistar árið 1938 - að slátra Austurríkismönnum.“

Bréf RÚV til HSÍ er af svipuðum toga. 

„Fyrir hönd Ríkisútvarpsins vil ég fullvissa HSÍ um að þetta atvik er litið mjög alvarlegum augum og gripið hefur verið til viðeigandi ráðstafana,“ segir í bréfinu.

„Ég vil fyrir hönd Ríkisútvarpsins biðja leikmenn og Handknattleikssambandið afsökunar. Við vonumst að þetta atvik varpi ekki skugga á farsælt samstarf okkar í framtíðinni,“ segir ennfremur.

Spurður út í það hver þessi viðeigandi viðbrögð væru, sem nefnd eru í bréfunum, svaraði Bjarni: „Á fundi var farið yfir málið með viðeigandi hætti, Björn Bragi ítrekaði síðan afsökunarbeiðni sína til áhorfenda, beggja landsliða og austurríkismanna sérstaklega.“

Ummælin draga dilk á eftir sér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert