Á Klepp eftir mikla kannabisneyslu

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

„Smá saman spenntist hann upp og varð upptekinn af yfirvofandi innrás kommúnista og gerði sér hvað eftir annað ferð út í kirkjugarð til að huga að leiði Kennedys eða þá til þess að hitta hann. Þetta var rúmu hálfu ári eftir morðið á forsetanum,“ sagði Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið?, í dag. „Þarna upplifði ég það að ungur Bandaríkjamaður, einstaklega vel gefinn skiptinemi sem verið hafði á Íslandi um veturinn og lært íslenskuna vel, veiktist á geði.“ 

Í erindi sínu lýsti hann upplifun sinni af því þegar félagi hans var sprautaður niður og í framhaldinu nauðungarvistaður í einangrunarklefa á geðdeild í Reykjavík. Hann lýsti einnig sinni reynslu af því að vera nauðungarvistaður. 

Ágústa Karla Ísleifsdóttir, Björn Hjálmarsson og Fanney Halldórsdóttir fluttu einnig erindi á málþingi Geðhjálpar í dag. Ágústa Karla og Björn sögðu frá reynslu sinni af því að hafa verið nauðungarvistuð en Fanney, móðir Ágústu, sagði frá þeirri reynslu að samþykkja að barnið sitt yrði nauðungarvistað á geðdeild og verða vitni að því. 

Þeim, ásamt Sveini Rúnari, ber saman um að ekki sé hentugt að nánustu ættingjar geðsjúkra eða makar þeirra þurfi að taka ákvörðun um hvort sjúklingurinn sé sviptur frelsi sínu. 

Fékk að dúsa í einangrunarklefa

Sveinn Rúnar hóf erindi sitt með því að vekja athygli á ummælum tveggja íslenskra geðlækna sem féllu á dögunum í umfjöllun um málþingið. Annar læknirinn hélt því fram að á Íslandi væri löng hefð fyrir því að beita geðsjúka ekki nauðung. Hinn sagði að notkun einangrunarherbergja hefði ekki tíðkast á Íslandi í 80 ár. “Hvorug fullyrðingin stenst skoðun,“ sagði Sveinn Rúnar. 

Sveinn Rúnar sagði frá því að ungur maður, sem vistaður var á Arnarholti á Kjalarnesi, hefði oftar en einu sinni verið vistaður í einangrunarklefa, en hann var meðal annars notaður í refsingarskyni fyrir strok. „Ungi maðurinn reyndi að fara í leyfisleysi til Reykjavíkur til að hitta pabba sinn, náðist og var fluttur í einangrunarherbergið,“ segir Rúnar.

Þar fékk maðurinn mat í gegnum lúgu og gat gert þarfir sínar í gegnum niðurfall á gólfinu. Gólfið var síðan spúlað með vissu millibili. Eftir annað strok dvaldi hann í tvær vikur í klefanum. 

Fjölskyldunni stillt upp við vegg

„Í janúar 1971 lagðist ég inn á Kleppsspítala, mjög ruglaður og nýkominn frá Þýskalandi þar sem ég hafði lent á geðdeild í tvær vikur í kjölfar mikillar kannabisneyslu og fengið þar nauðungarmeðferð,“ sagði Sveinn Rúnar. Í einangrunarherbergi á deild 10 fékk hann síðan að kynnast því hvernig er að vera haldið af hópi manna á meðan geðlyfi var sprautað í hann. 

Áratug síðar, í kjölfar nokkurra mánaða bindindistilrauna og síðan hassneyslu á ný reyndi hann án árangurs að fá geðlækna til að taka hann að sér sem sjúkling á stofu. „Ég fékk mig þó lagðan inn á geðdeild,“ sagði Sveinn Rúnar og bætti við að honum hefði þó fljótlega verið úthýst af deildinni. 

„Kleppsspítali neitaði að taka á móti mér nema ég kæmi sviptur. Um þetta var dílað að baki mér, móðir mín og systir fengnar til að skrifa undir sviptingarbeiðni sem innihélt upplýsingar um að ég væri hættulegur sjálfum mér og öðrum og vinur minn staðfesti það með læknisvottorði.“ 

Sveinn Rúnar sagði að þetta hefði reynst móður hans sérstaklega erfitt. „Fjölskyldunni var stillt upp við vegg, svipting skildi það vera, annars fengi ég enga meðferð,“ sagði hann í erindi sínu. Í heildina var Sveinn Rúnar sviptur sjálfræði sex sinnum á fimm árum, í síðasta skipti árið 1985, en í síðasta skipti sjálfviljugur. 

„Eftir reynslu mína sem sjúklingur situr það eftir hversu margvíslegt gott og skemmtilegt fólk starfar á þessu sviði,“ sagði Sveinn Rúnar. „Fjöldi allur bíður þess þó aldrei bætur að hafa fengið þessa meðferð, með eða án ofbeldis.“

Frétt mbl.is: „Vildi ekki fara og var sett í járn“

Frétt mbl.is: Mannvirðing sé höfð að leiðarljósi

Frétt mbl.is: „Lögin eru misnotað árásartæki“

Frétt mbl.is: „Hafa ekki setið auðum höndum“

Sveinn Rúnar Hauksson
Sveinn Rúnar Hauksson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert