Bann hefði neikvæð áhrif til skamms tíma

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum kynnti niðurstöðurnar í dag.
Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum kynnti niðurstöðurnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Greining Seðlabanka Íslands, sem gerð var að beiðni sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar af neytendalánum, bendir til þess að slíkt bann geti haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið til skamms tíma og jafnvel til millilangs tíma.

Niðurstöður greiningarfyrirtækisins Analytica, sem hópurinn fékk einnig til greiningarvinnu, eru um margt svipaðar þótt umfang þjóðhagslegra áhrifa sé metið mismikið. Gerir greining Analytica jafnframt ráð fyrir vægari áhrifum.

Í skýrslunni leiðir hópurinn líkur að því að fullt afnám verðtryggingar á einu bretti hefði töluverðar afleiðingar fyrir neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og hagkerfið í heild sinni. Geti þessar afleiðingar þegar allt er tiltekið ógnað fjármálastöðugleika.

Þá segir í skýrslunni að afnám verðtryggingar myndi gjörbreyta fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða. Vegna umsvifa lífeyrissjóðanna á íslenskum fjármálamarkaði sé mikilvægt að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að fjármögnun húsnæðislána, en þeir eru langstærstu fjármögnunaraðilar verðtryggðra íbúðalána neytenda.

Verði framkvæmt í áföngum

„Í hnotskun leiðir afnám verðtryggingar á neytendalánum til þess að verðtryggingarhringrás íslensks hagkerfis verður lokað en veruleg óvissa er um hvort lífeyrissjóðirnir muni halda áfram að fjármagna íbúðalán heimilanna séu þau óverðtryggð,“ segir í skýrslunni.

Vegna ofangreindra áhrifa á hagkerfið, neytendur, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði telur hópurinn skynsamlegra að afnámi verðtryggingar verði hrint í framkvæmd í áföngum.

Frétt mbl.is: Hámarkslánstími styttur í 25 ár

Frétt mbl.is: Mestu breytingarnar frá setningu Ólafslaga

Frétt mbl.is: Íslandslánin afnumin

Frétt mbl.is: „Ekki hvort, heldur hvernig“

Frétt mbl.is: Fasteignaverð gæti lækkað um 20%

mbl.is