„Hafa ekki setið auðum höndum“

Héðinn Unnsteinsson
Héðinn Unnsteinsson Ómar Óskarsson

Héðinn Unnsteinsson, ráðgjafi í geðheilbrigðismálum og fyrrverandi sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO-EURO), greindi í dag frá vinnu óformlegrar greinargerðar um nauðungarvistun á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið? Héðinn hefur komið að vinnunni sem ráðgjafi.

Hann segir vinnu við greinargerðina hafa farið á stað eftir fund þann 29. mars 2012 á vegum innanríkisráðuneytisins um mannréttindi geðsjúkra, en þar voru nauðungarvistanir ofarlega á baugi. Þar kom fram að mun færri væru lagðir inn á sjúkrahús með valdi hér á landi en í nágrannalöndunum, en þó mætti ýmislegt betur fara.

Til að mynda þyrfti að skoða verklag og verkferla í kringum nauðungarvistanir sérstaklega með það að leiðarljósi að draga úr hvers kyns valdbeitingu. Einnig þykir, að sögn Héðins mikilvægt að endurskoða beina aðkomu fjölskyldna að nauðungarvistunum með það að leiðarljósi að lámarka mögulega lífsgæðarýrnun í samskiptum innan fjölskyldna til lengri tíma

Breiður hópur vann að greinargerðinni

„Eftir fundinn 2012 hófst óformleg vinna í innanríkisráðuneytinu,“ segir Héðinn í samtali við mbl.is. Settur var saman hópur sem hefur hist fjórum sinnum allur og minni hópar oftar og unnið hefur verið að óformlegri greinargerð um nauðungarvistun. Hópurinn sem vinnur að greinargerðinni er breiður, en hann skipa meðal annars fulltrúar notenda þeirrar þjónustu sem geðsjúkir þiggja hér á landi, fulltrúar aðstandenda þeirra, fulltrúar innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytisins, fulltrúar Landspítala, Reykjavíkur, fulltrúir Geðhjálpar, Hugarafls og fleiri. „Þetta er mjög breiður hópur, ráðuneytið hefur að mínu mati kallað til fulltrúa allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta í þessu máli,“ segir Héðinn í samtali við mbl.is. 

Gerð greinargerðarinnar er nú á lokasprettinum og er stefnt að því að leggja lokahönd á hana fljótlega eftir næsta fund hópsins sem er þann 30. janúar nk.

Stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum

Héðinn er ánægður með starf hópsins og segir samstarfið hafa gengið vel. Mikilvægt sé að hafa breiða aðkomu þegar hugað er að máli sem þessu. „Þetta er óformlegt plagg sem gæti orðið grunnurinn að áframhaldandi vinnu. Áframhaldandi vinna er í höndum ráðherra. Þetta gæti til að mynda nýst sem gagn í vinnu sérfræðingahóps, ef ráðherra ákveður að skipa slíkan hóp í framhaldinu,“ segir Héðinn.

„Stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum,“ segir Héðinn. “Markvisst hefur verið unnið að þessari greinargerð í meira en heilt ár og jafnframt hefur málaflokkurinn fengið aukið vægi og samstarf ráðuneyta innanríkismála og velferðarmála ásamt haghöfum verið til fyrirmyndar og innanríkisráðuneytið hrós skilið fyrir verklagið og frumkvæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert