„Lögin eru misnotuð árásartæki“

Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég var andlega og líkamlega heilbrigður til 39 ára aldurs eða fram að því að sonur minn var myrtur í Hollandi af bestu vinum sínum,“ sagði Björn Hjálmarsson, læknir, í erindi sínu á málþingi Geðhjálpar sem fór fram í dag. Þar greindi hann frá reynslu sinni af andlegum veikindum og reynslu af nauðungarvistun á geðdeild.

Björn bjó ásamt fjölskyldu sinni í Hollandi þegar áfallið dundi yfir, sonur hans fannst látinn við árbakka í Rotterdam. „Hann hafði banvæna höfuðáverka sem samrýmdust ekki fundarstað, það eru sannanir fyrir því að líkið var flutt úr stað eftir andlátið, dánarorsökum hvísluðu þrír vinveittir samstarfsfélagar í eyra mér, þetta voru áverkar eins og þeir fá sem eru svo óheppnir að lenda í umferðarslysum og höfuðið slæst í burðarbita í bílnum,“ sagði Björn í erindi sínu. Hann segir að dánarorsök sonarins hafi aldrei komið fram og saksóknari í Hollandi neiti að rannsaka málið sem sakamál þar sem dánarorsök sé opinberlega ekki þekkt.

Nauðungarvistaður í tvígang

Björn sagðist í erindi sínu hafa komið að lokuðum dyrum hjá stjórnvöldum á Íslandi. Í skjölum hafi meðal annars komið fram að sonur hans hafi drukknað, en telur hann það skjalafals. Í nóvember 2002 sagði Björn sögu sína í fjölmiðlum, þar á meðal í beinni útsendingu í Íslandi í dag.

Í kjölfarið var Björn nauðungarvistaður á geðdeild í fyrsta skipti. „Ég var nauðungarvistaður á geðdeild örfáum dögum eftir beina útsendingu, en valinkunnir menn sjá hvergi geðrofið í útsendingunni eins og haldið var fram. Fyrst var ég nauðungarvistaður í 13 daga, síðan í 28 daga. Til að bæta úr skák var ég beitt sex mánaða langri háskammta geðlyfameðferð með miklum aukaverkum,“ segir Björn.

Hann tók fram að samstarfsfélagar sínir hefðu síðar viðurkennt að hafa orðið á læknamistök með að leggja við trúnaði á ósannan orðróm. „Ég hef komist að því að sterk rök hníga að því að valdheimild lögræðislaga hafi verið beitt gegn syrgjandi föður í leit að réttlæti.“

Hryllingur að flytja ábyrgðina til aðstandenda

Björn sagði að Landlæknisembættið hefði ítrekað áminnt hann að halda læknaeiðinn og halda trúnað. Hann gagnrýndi það að hafa tvisvar verið sóttur af lögreglu á heimili sitt án þess að fyrir lægi dómsúrskurður og engin geðskoðun hefði farið fram.

„Ekki hafði verið sýnt fram á að ég væri hættulegur sjálfum mér eða öðrum. Þá var ekki tryggt að synir mínir fengju vernd og réttar upplýsingar. Fyrir okkur geðsjúka ættu lögræðislögin að vera skjól. Þau eru það ekki, þau eru árásartæki, misnotað árásartæki,“ sagði Björn. „Það er hryllingur að flytja ábyrgð á nauðungarvistunum til aðstandenda.“

Frétt mbl.is: Mannvirðing sé höfð að leiðarljósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina