Náttúra Íslands er síbreytileg og mikil umskipti verða oft á skömmum tíma þegar vindar, regn og veðurbreytingar herja á landið. Það á meðal annars við um færslu jökla, myndun lóna, uppgræðslu eða landbrot. Fyrirtækið Loftmyndir hefur síðustu ár tekið myndir úr lofti af öllu landinu og uppfærir þær á eins til átta ára fresti að meðaltali. Þegar myndir af sama stað eru bornar saman má sjá hversu miklar breytingar hafa orðið á ekki lengri tíma en einum áratug.
Hér að neðan er að finna þrjú dæmi um þær breytingar sem hafa átt sér stað á landinu, en um er að ræða hop Gígjökuls í Eyjafjallajökli, uppgræðslu lúpínu við Fagurhólsmýri í Öræfum og stækkun Jökulsárlóns.