„Þetta er það sem við elskum að gera“

„Við erum bæði Íslandsmeistarar með fyrri dansfélögum. Við kepptum á móti hvort öðru á einu móti og mér hefur alltaf fundist hann voða flottur dansari síðan ég sá hann. Ég hætti að dansa með mínum dansfélaga í apríl á síðasta ári og hann var þá líka hættur að dansa við dömuna sína. Þannig að við vorum bæði að leita að félaga.“

Þetta segir Harpa Steingrímsdóttir (14 ára) spurð hvernig það kom til að hún fór að dansa við en Kristinn Þór Sigurðsson (13 ára) en þau báru sigur úr býtum á Reykjavíkurleikunum í dansi um síðustu helgi. Þau unnu allar fjórar keppnirnar sem þau tóku þátt í. Lönduðu Íslandsmeistaratitli í suðuramerískum dönsum, bikarmeistaratitli í ballrom-dönsum og unnu auk þess bæði opnu alþjóðlegu mótin í unglingaflokki á leikunum. Níu alþjóðlegir dómarar dæmdu alþjóðlegu mótin og fengu þau Kristinn og Harpa alls 157 merkingar í fyrsta sæti af 160 mögulegum.

„Erum eiginlega orðin eins og systkini“

„Við vorum hins vegar í sitthvorum dansskólanum þannig að það var svolítið erfitt að ákveða hvaða dansskóla við ættum að vera í. En svo endaði það með því að hann fór í minn dansskóla,“ segir Harpa. „Já, það er búið að fórna ansi miklu til að geta skipt um dansskóla og dansa við hana.“ Þau æfa nú bæði hjá Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar og segir Lind Einarsdóttir, móðir Hörpu, að þau séu mjög heppin með kennara þar, Maxim Petrov, sem sé mjög góður í suðuramerískum dönsum.

Spurð hvort það sé ekki mjög mikilvægt að ná vel saman í dansinum segja þau svo vissulega vera. „Þegar við byrjuðum að dansa saman í maí þá fékk ég bara þessa tilfinningu að þetta ætti bara að vera,“ segir Kristinn. „Við erum eiginlega orðin eins og systkini núna,“ bætir Harpa við og þau hlæja. Miklu skipti að smella vel sama. Lind bætir því við að flest danspör hætta að dansa saman vegna félagslegu hliðarinnar enda sé samband dansaranna mjög náið. En hvað er framundan?

Heimsmeistaramót í Moskvu framundan

 „Það er heimsmeistaramót í Moskvu sem við unnum rétt til þess að keppa á um síðustu helgi. Það er í lok mars,“ segir Harpa. „Það verður klikkaður undirbúningur fyrir það,“ bætir Kristinn við. Eftir tvær vikur fara þau einnig á eitt sterkasta mót á Norðurlöndunum, Copenhagen Open. Fyrst fara þau í þriggja daga æfingabúðir með heimsmeisturunum í ballrom-dönsum og síðan beint á mótið. Þá eru ennfremur fleiri mót framundan meðal annars á Ítalíu og í Bretlandi. Þannig að það er nóg að gera. En hvernig gengur að samræmi allt þetta við skóla og félagslíf?

„Við reynum yfirleitt að vinna allt í skólanum þegar við erum þar til þess að þurfa ekki að gera það heima. Annars rekst það allt á dansinn,“ segir Kristinn. „Síðan getur maður ekki eytt eins miklum tíma með vinunum. Það er bara æfing alltaf strax eftir skóla, heim, borða, önnur æfing og síðan heimalærdómur og síðan það sama aftur.“ Það þurfi að sleppa ýmsu öðru til þess að geta stundað dansinn. „En þetta er það sem við elskum að gera,“ segir Kristinn að lokum og Harpa tekur undir það.

Harpa og Kristinn.
Harpa og Kristinn. mbl.is/Kristinn
Harpa og Kristinn.
Harpa og Kristinn. Ljósmynd/Heida HB
Harpa og Kristinn.
Harpa og Kristinn. Ljósmynd/Steingrímur Þórðarson
Kristinn og Harpa taka snúning.
Kristinn og Harpa taka snúning. Ljósmynd/Sportmyndir.is
mbl.is