Óvíst hvernig fer án Gunnars

Frá Kópavogi
Frá Kópavogi Sigurður Bogi Sævarsson

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs hyggjast leggja fram tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins til að fjármagna byggingu félagslegra íbúða á bæjarstjórnarfundi í dag. Óvíst er hvernig atkvæðagreiðsla um hana muni fara, þar sem Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og stuðningsmaður tillögunnar, er staddur erlendis.

Forsaga málsins er að fulltrúar minnihlutans, sem eru Samfylking, VG og Næstbesti flokkurinn, auk Gunnars Birgissonar, samþykktu á fundi bæjarstjórnar fyrir tveimur vikum að kaupa 30-40 félagslegar íbúðir í bænum og byggja að auki tvö fjölbýlishús með leiguíbúðum. Annar bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Aðalsteinn Jónsson, sat hjá.

Meirihlutinn í bæjarstjórn, sem eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Y-listans, sögðu tillöguna skorta lagaheimild og yrði af framkvæmdunum myndu þær kosta bæinn um þrjá milljarða króna. Í kjölfar þessa urðu breytingar á lánshæfismati Kópavogs úr stöðugum horfum í neikvæðar.

Fulltrúar minnihlutans og Gunnar Birgisson fullyrða aftur á móti að kostnaðurinn sé töluvert minni, eða um 1,8 milljarðar. Nauðsynlegt hafi verið að koma til móts við þann fjölda fólks sem búi við óöryggi á leigumarkaði og jafnvel húsnæðisleysi.

Getur ekki svarað fyrir hverju verður tekið upp á

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram tillögu um að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun á fundi bæjarráðs í síðustu viku, en Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri, óskaði frestunar á henni og var orðið við því.

Hann segir tillöguna ekki vera á dagskrá bæjarstjórnarfundar í dag og þar sem hún sé í frestun í bæjarráði verði hún væntanlega rædd á næsta bæjarráðsfundi. „Tillaga sem er í frestun er ekki tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar. En ég get svo sem ekkert svarað fyrir hverju verður  tekið upp á á fundinum í dag,“ segir Ármann. Spurður um hvort áhrif tillögunnar hafi verið metin til fulls, segir hann svo ekki vera. „Málið er heldur ekkert jafn einfalt og sett er fram í tillögunni,“ segir hann.

Verður bara að koma í ljós

Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs, segist ætla að leggja tillöguna fram á fundinum í dag og óska eftir atkvæðagreiðslu um hana. Spurð um hvort hún telji að meirihluti sé fyrir henni segir hún það algjörlega óvíst. „Það verður bara að koma í ljós,“ segir Guðríður.

Hún segir að bæjarstjórn geti ákveðið að taka upp hvaða mál sem er, þó þau séu ekki á dagskrá. Spurð um hvort fjárhagsleg áhrif þessa viðauka hafi verið metin að fullu segir hún svo vera. „Já, það liggur í tillögunni, við erum að tala um 750 milljónir og gerum ráð fyrir 1 - 1,5 milljörðum af lóðasölu í ár. Þannig að þetta mun ekki hafa nein áhrif á niðurstöðu samstæðu og engu breyta um áætlanir um að fara með skuldahlutfall bæjarins niður fyrir lögbundið hámark.“

Karen styður ekki tillöguna

Aðalsteinn Jónsson, sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna þegar tillaga minnihlutans um húsnæðismál var samþykkt 14.1. síðastliðinn mun ekki mæta á bæjarstjórnarfund í dag. Í hans stað kemur Karen Elísabet Halldórsdóttir varabæjarfulltrúi. Hún mun ekki styðja tillöguna um viðaukann verði hún lögð fram á fundinum í dag. „Ég er ekki fylgjandi þessum viðauka, hann er ekki í samhengi við nýsamþykkta fjárhagsáætlun. Við erum tilbúin að skoða allar leiðir í þessum efnum, að leysa húsnæðisvandann, en við förum að sjálfsögðu eftir lögum og reglum,“ segir Karen.

Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er við störf í Noregi og mun ekki mæta á fundinn í dag. „Ég kem ekki og geri ráð fyrir að Jóhann Ísberg [varabæjarfulltrúi] sitji fyrir mig,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson.
mbl.is