Kennarar eru að brýna hnífana

Frá útskrift úr framhaldsskóla.
Frá útskrift úr framhaldsskóla. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þetta voru í sjálfu sér bara þreifingar, þar sem farið var yfir gögn beggja aðila. En það er djúp gjá á milli aðila og við höldum stíft á lofti kröfunni um leiðréttingu,“ segir Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, varaformaður Félags framhaldsskólakennara eftir fund samninganefndar félagsins með ríkissáttasemjara í morgun.

„Það dró ekki til tíðinda, en andrúmsloftið var vinsamlegt,“ segir Hrafnkell Tumi sem segir að næsti fundur verði eftir viku.

Deilu Félags framhaldsskólakennara og ríkisins var vísað til ríkissáttasemjara í síðustu viku, en samningur þeirra við ríkið rennur út 31. janúar, á föstudaginn. Framhaldsskólakennurum hefur verið boðin 2,8% launahækkun í samræmi við kjarasamning ASÍ. Kennarar segja það allt of lága hækkun, þeir fara fram á 17% hækkun sem þeir segja að sé sú leiðrétting sem gera þurfi á launum þeirra þannig að þau séu svipuð launum annarra háskólamenntaðra sérfræðinga sem starfa hjá ríkinu.

„Við erum ekki tilbúin að sætta okkur við ríkisútfærslu ASÍ. Við skröpum núna botninn í launaþróun á meðal opinberra starfsmanna og sættum okkur ekki við það lengur,“ segir Hrafnkell Tumi.

Hafna berstrípaðri tillögu ASÍ

Nokkuð hefur verið rætt um hugsanlegar verkfallsaðgerðir framhaldsskólakennara. Spurður um hvort farið sé að ræða verkfall segir Hrafnkell að fara þurfi varlega í slíka umræðu. 

„En það er það þungt í fólki að það er tilbúið að fylgja sínum kröfum eftir með aðgerðum ef þarf. Það má kannski segja að við séum að brýna hnífana, en auðvitað verður ekki gripið til neinna aðgerða nema að vel athuguðu máli.“

Hrafnkell segir fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála innan stéttar framhaldsskólakennara. „Í þessari umræðu verður líka að hafa í huga að meðalaldur framhaldsskólakennara er 53 ár, það er ljóst að stórir árgangar munu fara úr stéttinni á næstu árum. Annað sem ég heyri á fólki er að margir eru farnir að líta í kringum sig eftir öðrum störfum. Það er ekki verið að bjóða fólki samkeppnishæf laun.“

Að sögn Hrafnkels Tuma eru byrjunarlaun framhaldsskólakennara um 300.000 krónur á mánuði og heildardagvinnulaun um 380.000. „Það er alveg ljóst að þetta gengur ekki lengur og að þessi berstrípaða ASÍ tillaga verður aldrei samþykkt af okkar fólki. Ég er alveg sannfærður um það.“

Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, varaformaður Félags framhaldsskólakennara.
Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, varaformaður Félags framhaldsskólakennara.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert