Sá skikkjuklæddi „undir, yfir og allt um kring“

Skúli Bjarnason og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir.
Skúli Bjarnason og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir.

„Við þingfestinguna brá ákærðu eðlilega nokkuð í brún þegar þeim var lesinn pistillinn af skikkjuklæddum manni sem tjáðist fara með ákæruvaldið í málinu. Glöggir einstaklingar í hópi umbjóðenda okkar þóttust þekkja að þar væri kominn Karl Ingi Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari hjá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sami embættismaður og hafði sést stýra aðgerðum lögreglunnar í Gálgahrauni hinn örlagaríka dag 21. október 2013, þegar fólk var handtekið, flutt af vettvangi og læst í fangaklefum fyrir þær sakir einar að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt til friðsamlegra mótmæla.“

Þetta segja lögmennirnir Skúli Bjarnason og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, verjendur sakborninganna í níu í Gálgahraunsmálinu svokallaða, í grein í Morgunblaðinu í dag. Gagnrýna þau í greininni að einn og sami maðurinn hjá lögreglustjóraembætti höfuðborgarsvæðisins sé „undir, yfir og allt um kring“ í atburðarásinni. 

„Auðvitað gengur það ekki í nútíma réttarríki að sami aðili taki ákvarðanir á vettvangi, stýri rannsókn og fari loks með ákæruvald í lokin varðandi meint brot gegn honum sjálfum! Slík skipan er í hrópandi mótsögn við grunnreglur réttarríkisins um réttláta málsmeðferð þar sem rík áhersla hefur verið lögð á aðgreiningu einstakra þátta.“

Mál níumenninganna var þingfest í Héraðsdómi Reykjanes í gær. Þeir eru ákærðir fyrir brot á lögreglulögum nr. 90/1996, nánar tiltekið 19. gr. laganna, með því að hafa “ [...] neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set [...]“ 

Grafalvarlegur hlutur

Í greininni segja verjendurnir að Karl Ingi Vilbergsson sem stýri nú saksókn gegn níumenningunum, hafi sést ráðfæra sig við lögreglumenn sem tóku skýrslur af ákærðu á lögreglustöðinni í Reykjavík í kjölfar handtakanna. „Loks var það embættismaður Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Karl Ingi Vilbergsson, sem tók mildilega ákvörðun að kvöldi hins sama dags um að óhætt mundi að opna klefa fangelsisins og veita sakborningum frelsi á ný. Áður höfðu sakborningar ítrekað verið spurðir hvert þeir myndu halda að frelsinu fengnu.“

Þá segir í greininni: „Ef nafn Karls Inga Vilbergssonar er stytt út úr þessari frásögn, enda beinist gagnrýni undirritaðra ekki að honum persónulega, stendur eftir sá grafalvarlegi hlutur að einn angi ríkisvaldsins, Lögreglustjóraembætti höfuðborgarsvæðisins, og raunar einn og sami starfsmaður þess, er „undir, yfir og allt um kring“ í þessari atburðarás, svo notuð sé fleyg tilvitnun. Auðvitað gengur það ekki í nútíma réttarríki að sami aðili taki ákvarðanir á vettvangi, stýri rannsókn og fari loks með ákæruvald í lokin varðandi meint brot gegn honum sjálfum! Slík skipan er í hrópandi mótsögn við grunnreglur réttarríkisins um réttláta málsmeðferð þar sem rík áhersla hefur verið lögð á aðgreiningu einstakra þátta.“ 

Verjendurnir segja að á þessum grunni verði krafist frávísunar eða niðurfellingar allra fyrrgreindra refsimála. „Nái sú krafa ekki fram að ganga og komi til sakfellinga mun málinu verða fylgt fast eftir fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert