Hvers virði er leikskólakennari?

Stefanía Harðardóttir.
Stefanía Harðardóttir.

Stefanía Harðardóttir er 25 ára gamall leikskólakennaranemi sem starfar sem leiðbeinandi á leikskóla í Hafnarfirði. Hún hefur miklar efasemdir um námið út frá fjárhagslegum sjónarhóli. Í pistli sem hún skrifaði á Facebook segir hún í raun að þetta sé versta fjárhagslega ákvörðun sem hún hafi tekið þar sem mánaðarlaunin eru ekki upp á marga fiska.

Pistillinn hefur vakið töluverða athygli, og í samtali við mbl.is segist Stefanía hafa fengið afar góð viðbrögð. Bæði almennt séð en einnig frá þeim sem séu í sama námi og starfi í leikskólum.

Með 230.000 á mánuði fyrir fullt starf

„Þetta er í raun og veru það eina sem mig langar að starfa við en ef þetta er svona áfram þá munu engir leikskólakennarar útskrifast,“ segir Stefanía um námið, en hún er á fyrsta ári.

Það tekur fimm ár að ljúka náminu og að því loknu öðlast menn meistaragráðu.

Í dag fær Stefanía greiddar um það bil 230.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Grunnlaun leikskólakennara með meistaragráðu eru um 330.000 kr.

Óhætt er að fullyrða að fólk starfi ekki á leikskólum vegna launanna, enda segir Stefanía að starfið sé bæði gefandi og skemmtilegt en launin séu óboðleg fyrir fullt starf. 

„Ég get aldrei safnað neinu. Ég er aldrei að fara eignast neitt,“ segir Stefanía sem er á leigumarkaði með meðfylgjandi kostnaði og skuldbindingum.

Ásókn í leikskólakennaranámið lítil

Stefanía birti pistillinn á Facebook-síðu sinni sl. þriðjudagskvöld, en hann hefst með svohljóðandi hætti: „Ég hélt í nokkurn tíma að það að fara í leikskólakennaranámið hefði verið besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég er farin að sjá það að ég hafði rangt fyrir mér. Ég er farin að sjá það núna að ákvörðun mín að eyða fimm árum í háskóla til þess að verða leikskólakennari var líklega sú versta sem ég hef tekið.“

Stefanía segir að ásókn í námið sé mjög lítil. „Við erum örfá í mínum bekk.“

„Ein sem vinnur með mér, sem útskrifaðist 2011 úr leikskólakennaranámi, segir að um 90% þeirra sem byrjuðu í námi með henni hafi sagt að þeir gætu leyft sér að fara í námið af því að þeir höfðu góða fyrirvinnu. Þetta er það lélegt,“ segir Stefanía.

„Að vera bara fastur í einhverjum launaflokki og hafa ekkert með það að segja er mjög letjandi,“ segir hún ennfremur.

Reynslan ekki metin til fjár

Stefanía hefur starfað á leikskólanum í Hafnarfirði í um eitt og hálft ár, en þar áður starfaði hún á leikskóla í Reykjavík, einnig í um 18 mánuði. Stefanía býr því yfir um þriggja ára starfsreynslu.

„Ég hef verið leiðbeinandi, unnið við sérkennslu og ég hef verið deildarstjóri. Ég er komin með mjög fína reynslu sem því miður í rauninni skiptir engu máli hvað viðkemur launum,“ segir Stefanía og bætir við að það sé afar leiðinlegt.

Kjaramálin mikið rædd innan veggja leikskólans

- Hver var kveikjan að skrifunum?

„Deildarstjórinn minn á leikskólanum var búinn að hvetja mig til þess að skrifa eitthvað, af því að ég tala mjög mikið um þetta í vinnunni. Við, sem vinnum við þetta, ræðum þetta mjög mikið,“ segir hún.

„Ég bjóst aldrei við öllu þessu umtali en það er frábært að fólk skuli hafa áhuga á þessu.“

Stefanía segist vilja sjá að kjör leikskólakennara - einnig kjör ófaglærðra sem starfi á leikskólum -  verði bætt og þar með verði námið eftirsóknarverðara.

„Umræðan og umtalið skapar kannski einhverja pressu og fær fólk aðeins til að hugsa um þetta, og þá sérstaklega fólkið sem ákvarðar launin. Eins með foreldra barnanna á leikskólanum, það væri gaman ef þau myndu láta í sér heyra. Að þau myndu krefjast launahækkana fyrir fólkið sem sér um börnin þeirra. Það væri frábært,“ segir Stefanía, sem tekur fram að pistillinn hafi fengið afar góðar undirtektir frá foreldrum barna á sínum vinnustað.

Sterk undiralda

Félag leikskólakennara hefur birt pistil Stefaníu á Facebook-síðu sinni. Félagið segir að það sé verkefni samfélagsins að leiðrétta laun leikskólakennara til samræmis við aðra sérfræðinga.

„Það virðist vera sterk undiralda í samfélaginu sem tekur undir þær kröfur kennara. Þeir sem hafa vald til að taka slíkar ákvarðanir þurfa að stíga upp og framkvæma,“ segir orðrétt á síðu félagsins.

Þeir sem starfa á leikskólum eru almennt sammála um að …
Þeir sem starfa á leikskólum eru almennt sammála um að starfið sé bæði gefandi og skemmtileg, enda forréttindi að fá að vinna með börnum. Myndin er úr safni. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert