Ekki vitað hversu margir eru um borð

Ekki er vitað hversu margir eru um borð í sökkvandi bát á Faxaflóa né nánar hvar hann er staddur. Ekkert hefur heyrst frá skipverjum sem komnir voru í björgunargalla. Leit er hafin og er víðtæk.

Eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag barst Landhelgisgæslu Íslands neyðarkall rétt fyrir klukkan 15 í dag. Í neyðarkallinu kom fram að leki væri kominn að báti á Faxaflóa og að skipverjar væru á leið í björgunargalla.

Umsvifalaust voru kallaðir út kafarar, björgunarskip og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Snæfellsnesi til og með Reykjanesi.

Einnig verður leitað úr lofti, á þyrlu Landhelgisgæslunnar, auk þess sem aðstoð fæst frá björgunarþyrlum Finna sem eru nú hér á landi vegna æfingarinnar Iceland Air Meet 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert