Geðrof er sjúkdómur unga fólksins

Meira en ¾ af öllum geðsjúkdómum byrja fyrir 25 ára …
Meira en ¾ af öllum geðsjúkdómum byrja fyrir 25 ára aldurinn. Rétt meðhöndlun snemma á sjúkdómsferlinu skiptir sköpum. mbl.is/Golli

Meira en ¾ af öllum alvarlegum geðsjúkdómum byrja fyrir 25 ára aldurinn og gert er ráð fyrir að á milli 40-60 ungir Íslendingar greinist með geðrofssjúkdóma á ári hverju, en þeir eru taldir einna alvarlegastir geðsjúkdóma. Mikilvægt er að greina þá sem fyrst og að ungt fólk fái þjónustu við hæfi. Rétt meðhöndlun snemma á sjúkdómsferlinu skiptir sköpum.

Þá er það líka þjóðhagslega hagkvæmt að bregðast við sem fyrst, því geðklofi, sem er einn af geðrofssjúkdómunum, kostar um 1% af þjóðarframleiðslu á Vesturlöndum. 

Þetta segir Nanna Briem geðlæknir. Hún flutti erindi á læknadögum í síðustu viku um greiningu geðraskana og fyrstu meðferð þeirra hjá ungu fólki. Nanna starfar við þjónustu sem heitir Endurhæfing LR og sérstaklega sniðin að þörfum ungs fólks með geðrofssjúkdóma.

Í gær birtist viðtal á mbl.is þar sem rætt var við móður ungs manns sem greindist 19 ára gamall með geðhvarfasýki og hefur síðan þá margoft verið lagður inn á geðdeildir, verið sviptur sjálfræði og hefur barist við fíkn. Undanfarin ár hefur hann notið meðferðar á Endurhæfingu LR og móðir hans segir kraftaverk hafa gerst. 

Undir geðrofssjúkdóma flokkast ýmsir sjúkdómar, eins og t.d. geðklofi, geðhvarfaklofi og geðhvörf með geðrofseinkennum. Þeir einkennast af geðrofi, sem er ástand þar sem erfitt er að greina á milli innri hugarheims og raunveruleikans. Viðkomandi skynjar þá og túlkar umhverfi á annan hátt en aðrir og helstu einkennin eru ofskynjanir, ranghugmyndir og hugsanatruflanir.

Margir halda að þetta séu sjúkdómar eldra fólks

Um 40-60 veikjast af geðrofssjúkdómum á ári hverju, flestir yngri en 30 ára. Að sögn Nönnu er sjaldgæft að þeir greinist fyrir 12 ára aldur, en dæmi séu um að þeir séu greindir hjá unglingum á barna- og unglingageðdeild.

„Margir sjá fyrir sér að þetta séu sjúkdómar eldra fólks. En rannsóknir sýna að meira en ¾ af öllum geðsjúkdómum byrja fyrir 25 ára aldur. Það sama á við um geðrofssjúkdómana, en þeir byrja hjá körlum í lok unglingsáranna og í byrjun fullorðinsáranna, en eilítið seinna hjá konum,” segir Nanna.

Flestir geta notið góðra lífsgæða með góðri meðferð

„Ef við náum að greina þessa sjúkdóma sem allra fyrst og byrja án tafar með viðeigandi meðferð er hægt að hafa jákvæð áhrif á gang sjúkdómsins. Þetta eru svo alvarlegir sjúkdómar sem geta haft veruleg áhrif á líf fólks, því fólk fær þá á mjög viðkvæmu stigi í lífinu - þegar það er að stíga fyrstu skrefin inn í fullorðinsárin.”

Að sögn Nönnu geta afleiðingarnar orðið alvarlegar ef viðeigandi meðferð fæst ekki. „Sérstaklega félagslega, þau geta dottið út úr skóla, úr vinnu, einangrast heima fyrir og misst tengslin við vini sína. Sumir verða svo veikir að þeir þurfa mikla þjónustu, en það er mjög lítill hópur, því að flestir geta notið góðra lífsgæða með góðri meðferð.”

Unga fólkið hefur aðrar þarfir en þeir eldri

Nanna segir að víða um heim sé farið að einblína meira á geðheilsu ungs fólks. „Því að það er þá  sem sjúkdómarnir byrja. En það þarf að miða þjónusta við þennan aldurshóp, ungt fólk hefur aðrar þarfir en eldra fólk.”

Hún segir að mikil vakning hafi orðið á þessu sviði og nefnir sem dæmi þjónustu Endurhæfingar LR. Hún er staðsett í einbýlishúsi í íbúðahverfi í Reykjavík og er ætluð ungu fólki með geðrofssjúkdóma á byrjunarstigi. Nú njóta 53 þjónustunnar og sjö eru á biðlista.

„Við erum þar að sinna fólki á aldrinum 18-25 ára. Flestir búa heima hjá sér og koma til okkar í dagþjónustu og við veitum meðferð, endurhæfingu og eftirfylgd í allt að 4-5 ár. Lyfjameðferð er grunnurinn að meðferðinni, en við kennum ýmsar leiðir til að takast á við sjúkdóminn með hugrænni atferlismeðferð, fræðslu og streitustjórnun. Við erum líka með náms- og starfsendurhæfingu, leggjum mikla áherslu á að vinna með fjölskyldunni og þá er mikil áhersla á tónlist, listsköpun og hreyfingu. Allt sem við gerum miðar að því að draga úr einkennum og koma þessu unga fólki út í lífið aftur þannig að þau geti lifað góðu lífi.”

Einkennin geta verið margvísleg

Nanna segir að mikil áhersla sé lögð á að vinna með fjölskyldu ungmennanna. „Það skiptir svo miklu máli, hún er og verður aðalstuðningsaðilinn og fólk verður að vera upplýst og í standi til að vera stuðningsaðili fyrir viðkomandi.Við komum bara tímabundið inn í líf fólks, en fjölskyldan verður þar áfram.”

Að sögn Nönnu er afar misjafnt hvort ungmennin leita sér sjálf aðstoðar eða hvort það eru foreldrar eða aðrir stuðningsaðilar. „Krakkarnir koma stundum á bráðamóttöku geðdeildar vegna vanlíðunar, kvíða og þunglyndis, stundum eftir pressu frá fjölskyldunni. Stundum koma áhyggjufullir foreldrar með börnin sín því að þau hafa áhyggjur af undarlegri hegðun þeirra. T.d. gæti ungmenni verið orðið kvíðnara en venjulega, einangrað sig heima við, hætt að hitta vini sína, dettur úr úr skóla og snýr við sólarhringnum.  Þetta gæti auðvitað átt við um mjög margt og gæti verið eðlileg áhrif unglingsáranna. Þetta gæti líka verið merki um neyslu eða vanlíðan. En fólk þarf að hafa í huga að svona gæti byrjun á geðrofssjúkdómi líka litið út.”

Hvað með forvarnir, er hægt að nefna þær í þessu samhengi? „Það er ákveðin tegund af forvörn að grípa inn í sem allra fyrst með viðeigandi meðferð. Þegar verið er að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist í eitthvað alvarlegt og beri með sér mikinn skaða,” segir Nanna. „Erlendis hefur verið reynt að finna fólk á forstigi sjúkdómanna,  en það getur verið erfitt.”

Mikið hagsmunamál fyrir samfélagið

Nanna segir að um sé að ræða mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt, ekki einungis þann sem veikist og fjölskyldu hans.

„Geðklofi, sem er einn af geðrofssjúkdómunum, kostar t.d. um 1% af þjóðarframleiðslu á Vesturlöndum. Þá er verið að tala um umönnun og meðferð sem þessir einstaklingar þurfa, fyrir utan allt það álag sem sjúkdómurinn veldur einstaklingnum og fjölskyldunni. Þetta er jafnmikill kostnaður, ef ekki meiri, en við hjarta- og æðasjúkdóma eða krabbamein og er fyrst og fremst tilkominn vegna þess að um er að ræða ungt fólk sem veikist og dettur út af vinnumarkaði og þarf mikla umönnun alla ævi ef það fær ekki rétta meðferð nægilega snemma. Þess skiptir svo miklu máli að fólk með þessa sjúkdóma geti farið út á vinnumarkaðinn eða í nám.”

Nanna segir að stundum gæti einkenna geðrofs í allt að ár áður en viðkomandi  leiti sér aðstoðar og fái meðferð. „Það hefur gríðarleg áhrif á líf ungs fólks, þau detta jafnvel út úr öllu á þessum tíma. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við finnum þessa einstaklinga sem fyrst og að við getum aðstoðað þá út í lífið aftur.”

Hvernig er hægt að finna þá fyrr? „Með aukinni meðvitund. Og við erum virkilega á réttri leið.”

Á morgun mun birtast viðtal á mbl.is við ungan mann sem greindist með geðrofssjúkdóm er hann var 23 ára gamall. Hann er einn rúmlega 50 ungra karla og kvenna sem njóta þjónustu Endurhæfingar LR.

Frétt mbl.is: Fullyrði að kraftaverk hafi gerst

Nanna Briem geðlæknir. Hún starfar við þjónustu sem heitir Endurhæfing …
Nanna Briem geðlæknir. Hún starfar við þjónustu sem heitir Endurhæfing LR og sérstaklega sniðin að þörfum ungs fólks með geðrofssjúkdóma Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert