Óvíst hvort leitað verði meira

Frá leitinni í dag.
Frá leitinni í dag. mbl.is/Kristinn

Leit að bát sem sendi neyðarkall um miðjan dag hefur verið frestað, enda ekki talið líklegt að frekari leit í kvöld skili árangri. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort leit verði haldið áfram á morgun. Staðan verður metin í fyrramálið og í kjölfarið tekin ákvörðun um framhaldið.

Neyðarkallið heyrðist í báti við Akranes og í kerfi LHG og þar kom fram að leki væri kominn að bátnum og menn væru að fara í björgunargalla. Engar frekari upplýsingar hafa borist síðan og ekki vantar skip inn í tilkynningaþjónustuna hjá Vaktstöð siglinga. 

Sérkennilegt þykir að ekki skuli hafa borist neinar vísbendingar um bátinn eða áhöfn hans eftir að neyðarkallið barst. Þrátt fyrir að ekki sé útilokað að sjóslys hafi orðið bendi ýmislegt til þess að um gabb sé að ræða.

Tuttugu sekúndna skilaboð

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi kl. 14:54 heyrt aðstoðarbeiðni á rás 16, sem er neyðar- og uppkallsrás skipa og báta. 

„Okkur vantar aðstoð – við erum úti við Faxaflóa – Yfir - Báturinn er farinn að leka mikið og við erum að fara í flotgallana.“ Skilaboðin voru 20 sekúndur að lengd og ítrekaðar tilraunir varðstjóra Landhelgisgæslunnar til að ná sambandi við bátinn að nýju báru ekki árangur.

Samstundis var hafin víðtæk leit en skilaboðin heyrðust einnig í harðbotna björgunarbát Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akranesi. Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út auk kafara og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Finnskar björgunarþyrlur sem taka þátt í æfingunni Iceland Air Meet 2014 voru einnig við leit og Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð. Allt að tvö hundruð manns tóku þátt í leitinni.

Reiknað var út leitarsvæði miðað við senda á Bláfjöllum og Fróðárheiði. Var með þeim hætti hægt að minnka leitarsvæðið, sem náði allt frá Malarrifi að Garðskaga. Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg leituðu ítarlega á austanverðum Faxaflóa meðan finnskar björgunarþyrlur leituðu á norðan- og vestanverðum Faxaflóa en einnig var Björg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, þar við leit.

Engin tilkynning hefur borist frá sjálfvirku tilkynningaskyldunni eða neyðarsendum og ekki hafa sést neyðarblys á lofti. Ekki hefur verið haft samband vegna báta sem er saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert