Fangarnir beðnir að snúa aftur

Bærinn sem Orri dvaldi lengst í á vegum RKÍ.
Bærinn sem Orri dvaldi lengst í á vegum RKÍ.

Rauði krossinn á Íslandi hélt í dag fund þar sem þrír hjálparstarfsmenn sögðu frá reynslu sinni af hjálparstörfum á Filippseyjum eftir að fellibylurinn Yolanda gekk yfir eyjarnar og skildi eftir sig slóð eyðileggingar.

Orri Gunnarsson, skipulagsfræðingur, var í hópi fyrstu alþjóðlegu hjálparstarfsmanna sem sendir voru á vettvang. Hann var fulltrúi Rauða krossins á Íslandi í neyðarsveit sem setti upp tjaldsjúkrahús í Basey á eyjunni Samar. Þar gekk fellibylurinn fyrst á land og eyðileggingin var gríðarleg. Þetta var fyrsta verkefni Orra með Rauða krossinum.

Sjúkrahúsið frá Norðmönnum

Orri segir að norski Rauði krossinn hafi lagt til öll sjúkrahúsgögnin, tæki, lyf, tjöld og verkfæri frá Noregi. Hann segir norðmenn eiga tjaldsjúkrahús á lager og þegar hafi verið búið að senda það fyrsta. „Þeir eru svo vel útbúnir að þeir eiga meira en tvennt af flestu. Þeir gátu því sent annað sjúkrahús með litlum fyrirvara, þetta sem ég vann við,“ bætir Orri við.

Hann segir ferðalagið hafa verið gríðarlega langt. „Það var mjög erfitt að komast að hamfarasvæðunum.“ Eftir flugið til Filippseyja tók við langt og erfitt ferðalag um misónýta vegi, með prömmum og svo framvegis, því vegakerfi og innviðir á eyjunum var meira og minna í rúst. 

„Tjónið var mest nálægt ströndinni,“ segir Orri. „Þar var eyðileggingin nánast algjör.“ Hann segir að manntjónið hafi í sjálfu sér ekki verið mjög mikið. „6.000 manns eru látnir og 2.000 er saknað. Á Filippseyjum búa um 100 milljónir, þannig að maður hefði einhvern veginn búist við meira manntjóni í svona þéttbýlu landi.“ 

Innviðir á hamafarasvæðinu voru að hans sögn að miklu leyti í rúst, sérstaklega byggingar og veitukerfi á borð við rafmagn, síma, vatn og skólp. Vegir voru í ágætu lagi en mikil umferð og brak olli töfum á vegum og flugvöllum. Stjórnsýslulegir innviðir á borð við her og lögreglu virkuðu þó að hans sögn vel.

Hann sagði að það hefði komið nokkuð á óvart að ekki ríkti óöld þrátt fyrir mikla eyðileggingu. Lögregla og her hafi haft góða stjórn á aðstæðunum.

„Það bar ekkert á uppreisnarhópum eða ræningjum, þrátt fyrir að við værum með mjög mikið af verðmætum græjum. Það vantaði ekki einn einasta hamar eða skrúfjárn þegar við fórum.“

Kom í stað sjúkrahúsa og heilsugæslu

Sjúkrahúsið sem þau settu upp kom í stað sjúkrahúsa og heilsugæslu á svæðinu. „Án okkar hefði þetta ekki verið til staðar.“ Hann benti þó á að tímabundna sjúkrahúsið sem hann setti upp hafi sennilega verið betra en sú aðstaða sem var til staðar í bænum áður en fellibylurinn gekk yfir eyjarnar.

Orri sagði að vatnsdreifing hafi þegar verið hafin þegar teymið sem Orri tilheyrði kom til staðar, þannig að hans hlutverk var frekar að tryggja að vatnið væri hreint. Hann hafði orð á því að þegar vatnsdreifing er komin í lag, þá sé hægt að komast hjá ótrúlega mörgum vandamálum.

Mestu skemmdirnar við ströndina voru vegna fljóðbylgju, ekki „tsunami“ heldur meira þannig að vatnið flæddi upp á land og fyllti allt af drullu. „Það voru bílar uppi í trjám og skip uppi á landi.“

Fangarnir beðnir að snúa aftur 

„Það fer eiginlega allt úr skorðum þegar svona hamfarir ganga yfir. Starfsfólk fangelsa fór til dæmis bara heim að sinna sínum og gekk út úr fangelsunum. Fangelsin voru því bara opnuð og föngunum sleppt, hliðin voru bara opnuð því annars hefðu þeir sennilega drukknað. Fangarnir voru svo vinsamlegast beðnir að skila sér til baka og gerðu það velflestir. Þar gátu þeir allavega gengið að næringu og húsaskjóli," segir Orri og hlær.

Hann segir samt sem áður að innviðir samfélagsins hafa komist í lag ótrúlega fljótt. „Smáverslun hófst aftur mjög fljótlega eftir hamfarirnar, kók og sígarettur skiluðu sér til dæmis ótrúlega fljótt í sölubásana.“

Hann telur starfsfólk Rauða krossins hafa unnið gott starf. Búið er að loka spítalanum sem hann starfaði á, sem var hugsaður til bráðabirgða, og búnaðurinn sem þar var notaður gefinn til spítala í Filippseyjum og filippseyska Rauða krossins.

Orri Gunnarsson á fundinum í dag.
Orri Gunnarsson á fundinum í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Orri við eitt af fjöldamörgum tjöldum Rauða krossins
Orri við eitt af fjöldamörgum tjöldum Rauða krossins
Orri ásamt fleira starfsfólki Rauða krossins í Filippseyjum.
Orri ásamt fleira starfsfólki Rauða krossins í Filippseyjum.
mbl.is