PIP máli vísað frá

AFP

Fjölskipaður héraðsdómur vísaði frá PIP-brjóstapúðamáli á hendur Jens Kjartanssyni lýtalækni og sýknaði dreifingaraðila þeirra af skaðabótaskyldu. Í dómnum koma fram alvarlegir ágallar á málatilbúnaði stefnanda. Þetta kemur fram í Kjarnanum í dag.

Líkt og mbl.is og fleiri fjölmiðlar fjölluðu um varð ekkert varð af boðaðri hópmálsókn gegn lýtalækninum líkt og boðað hafði verið til.

Hins vegar höfðaði ein kona mál á hendur Jens persónulega, tveimur dreifingaraðilum brjóstapúðanna og Tryggingamiðstöðinni til réttar gæslu. Stefna málsins var birt 3. október 2012, en Jens græddi í konuna brjóstapúða frá PIP árið 2002, segir í Kjarnanum í dag.

Aðalmeðferð málsins fór fram 8. nóvember síðastliðinn, en þinghaldið var lokað að beiðni lögmanns konunnar, Sögu Ýrr Jónsdóttur héraðsdómslögmanns hjá Vox lögmannsstofu. Krafa konunnar var að viðurkennd yrði fyrir dómi skaða -bótaskylda stefndu vegna líkamstjóns af völdum rofins PIP - brjóstapúða.

Eftir töluverð óþægindi í holhönd leitaði konan í marsmánuði árið 2011 til læknis, sem sendi hana í ómskoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Þar kom í ljós að brjóstapúðar hennar voru rofnir og sílíkon farið að leka. Nokkrum dögum síðar leitaði konan aftur til læknis, en þá var hún komin með útbrot sem læknirinn mat sem ofnæmisviðbrögð og gaf henni lyf.

Degi síðar leitaði konan aftur til læknis með aukin ofnæmisviðbrögð. Konan var þá með öndunarerfiðleika og var send á Landspítalann, þar sem hún lá í fjóra daga og fékk stera og sýklalyf í æð. Konan þurfti að notast við lyfin í fjórtán daga.

Jens fjarlægði brjóstapúðana úr konunni í apríl 2011. Þá var hún komin með bólgna eitla sem voru orðnir fullir af sílíkoni. Eftir aðgerðina var konan frá vinnu í viku. Um mánaðamótin júní/júlí fann konan að bólgnu eitlarnir voru enn til staðar. Konan segir að Jens hafi ráðlagt henni að nota áfram bólgueyðandi lyf vegna þeirra og þeir myndu jafna sig með tímanum.

Hún gekkst svo undir aðra aðgerð 18. maí þar sem sílíkon var fjarlægt úr henni og sömuleiðis átta eitlar sem voru fullir af sílíkoni. Konan taldi sig hafa orðið fyrir miklu tjóni, bæði líkamlegu og andlegu, ásamt því að hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vinnutaps og útlagðs kostnaðar. Hún lagði þó engar matsgerðir dómkvaddra sérfræðinga fram máli sínu til stuðnings við dómi, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um málið.

Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að vísa bæri frá öllum kröfum á hendur Jens Kjartanssyni. Kröfunni á hendur Jens var vísað frá dómi með vísan til laga um sjúklinga tryggingu. Konunni bar að halda uppi kröfum á hendur trygginga félagi Jens áður en hann yrði krafinn persónulega um bætur. Engi skipti þótt um viðurkenningarmál hefði verið að ræða. Stefnan var því haldin ágalla hvað þetta varðaði að mati héraðsdóms.

Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert