Krefjast 556 milljarða frá Tryggingarsjóði Innstæðueigenda og fjárfesta

Icesave gengur aftur.
Icesave gengur aftur. Ómar Óskarsson

Hollenski seðlabankinn DNB og breski innstæðusjóðurinn FSCS hafa stefnt Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi, TIF, fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. DNB og FSCS greiddu innstæðueigendum í Hollandi og Bretlandi bætur við fall Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.). Um var að ræða innstæður vegna Icesave-reikninga LBI hf. í Hollandi og Bretlandi.

DNB og FSCS krefjast þess að TIF verði gert að greiða eða staðfest verði að TIF hafi borið að greiða að fullu lágmarkstryggingu eða allt að 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda, auk vaxta og kostnaðar. Höfuðstóllinn fyrir utan vexti og kostnað nemur tæplega 556 milljörðum íslenskra króna. Krafa FSCS hljóðar upp á 452,1 milljarð króna og krafa hollenska seðlabankans er upp á 103,6 milljarða króna. Dómsmálin voru þingfest hinn 28. nóvember 2013. 

Fljótlega eftir fall íslenska fjármálakerfisins, 27. október 2008, stofnaðist greiðsluskylda á TIF og gagnvart innstæðueigendum LBI hf. Frá árinu 2008 hafa staðið yfir viðræður milli íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda og viðkomandi tryggingarsjóða um ábyrgð á Icesave-innlánum. Samningar milli þjóðanna voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang hér á landi.

Þegar ljóst varð að málið yrði ekki leyst með samningum ákvað TIF að hefja útgreiðslu fjármuna í samræmi við lög og eftir því sem efni stóðu til. Ákvörðun TIF var samþykkt á stjórnarfundi 8. september 2011 og gafst kröfuhöfum kostur á að tjá sig um ákvörðunina og þau skilyrði sem hún fól í sér.

DNB og FSCS mótmæltu þeim skilyrðum sem fram koma í ákvörðun sjóðsins og höfnuðu greiðslu á þeim grundvelli sem TIF bauð fram. Eftir það hafa aðilar skipst á bréfum og átt nokkra fundi sem ekki hafa skilað árangri.

Hinn 28. janúar 2013 féll dómur EFTA-dómstólsins þar sem kveðið var upp úr með það að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á greiðslum TIF vegna Icesave-innstæðna LBI hf. í Bretlandi og Hollandi. Dómurinn staðfesti jafnframt að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB, um innlánatryggingakerfi, var ekki sett með fall heils fjármálakerfis í huga heldur tekur hún á falli einstakra banka.


TIF hefur yfir að ráða um 18,2 milljörðum króna sem boðnar hafa verið DNB og FSCS í réttum hlutföllum við kröfur hvors aðila gegn framsali krafna. Um er að ræða þá fjármuni sem voru til staðar í sjóðnum við fall LBI hf. og er þeim haldið aðgreindum frá öðru fé sjóðsins. TIF telur hins vegar allar kröfur DNB og FSCS vera fyrndar í ljósi þess að greiðsluskylda stofnaðist fyrir rúmum fimm árum.

Fallist dómstólar ekki á þau sjónarmið telur TIF greiðsluskyldu sína takmarkast við þær fjárhæðir sem sjóðurinn hafði yfir að ráða á þeim tíma sem greiðsluskyldan stofnaðist. Ýtrustu kröfur DNB og FSCS má meta á um eitt þúsund milljarða króna með vöxtum og kostnaði. Nái kröfur þeirra fram að ganga er ljóst að TIF verður gert erfitt fyrir að sinna þeirri frumskyldu sinni að tryggja innstæður á Íslandi til framtíðar.

Hafa ber í huga að bæði DNB og FSCS greiddu innstæðueigendum út fjármuni í sínum löndum að eigin frumkvæði og án beiðni eða samþykkis TIF.

mbl.is

Bloggað um fréttina