Svínsleg sjálfsánægja og sinnuleysi

Nú eru sýnd á Kjarvalsstöðum popplistaverk finnska listamannsins Harros, sem sum hver ollu uppnámi þegar þau voru fyrst sýnd í Finnlandi. Svínasyrpan hans fræga þykir t.a.m. spyrja áleitinna spurninga um sinnuleysi og sjálfsánægju.

Á sýningunni eru verk byggð á finnska fánanum og á vörumerkjum alþjóðlegra fyrirtækja og þykja veita góða innsýn í hugarheim Harros. Verk hans eru nú í fyrsta skipti kynnt fyrir íslenskum áhorfendum í samstarfi við Listasafnið í Turku sem mun á móti kynna verk íslenska popplistamannsins Errós fyrir Finnum.

Þá var opnuð sýning á verkum Hildar Ásgeirsdóttur þar sem málaralist og vefnaður renna saman í verkum úr handlituðum silkiþráðum en sýningin nefnist: Úr iðrum jarðar. Hildur sækir efnivið sinn í íslenskt landslag og hefur t.d. búið til myndraðir um Vatnajökul og Heklu. Á sýningunni má sjá úrval af þessum stóru málverkum sem ofin eru í þriggja metra breiðum vefstól.

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson fæddist í Reykjavík en hefur búið í Cleveland í þrjátíu ár, hún kemur tvisvar á ári til Íslands og tekur ljósmyndir á gönguferðum sínum um landið. Hlutar úr þessum ljósmyndum, skuggar af fjallstindum eða jökulsprungur, eru einangraðir, klipptir út og stækkaðir. Hildur vefur síðan þessar myndir á vinnustofu sinni í Cleveland þar sem hún handlitar þræðina áður en hún fellir þá inn í vefinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert