Ber skýlausa skyldu til að borga

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lítur svo á að samkvæmt tilskipun sambandsins um innistæðutryggingar beri innistæðutryggingasjóðum, sem settir eru á laggirnar á grundvelli hennar, skýlaus skylda til þess að bæta tapaðar innistæður að fullu upp að því lágmarki sem kveðið er á um í tilskipuninni, óháð umfangi þeirra erfiðleika sem kunna að hafa skollið á og leitt til þess að innistæður töpuðust.

Þetta kemur fram í svari frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins við fyrirspurn frá mbl.is þess efnis hvort hún styðji kröfu hollenska seðlabankans DNB og breska innstæðutryggingasjóðsins FSCS á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta (TIF). Stofnanirnar tvær fara fram á greiðslu 556 milljarða króna auk vaxta og kostnaðar vegna þeirra fjármuna sem þær lögðu fram til þess að bæta innistæðueigendum í Hollandi og Bretlandi, sem áttu fjármuni inni á reikningum internetbankans Icesave sem rekinn var af Landsbanka Íslands, innistæður sínar.

Fram kemur í svari frá Audrey Augier, talsmanni Michels Barnier, yfirmanns innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að þrátt fyrir þá niðurstöðu EFTA-dómstólsins fyrir ári að íslensk stjórnvöld hefðu ekki brotið gegn tilskipuninni um innistæðutryggingar í Icesave-málinu túlki framkvæmdastjórnin tilskipunina eftir sem áður svo að innistæðutryggingakerfi ríkja sambandsins eigi einnig við um aðstæður þar sem kerfishrun á sér stað.

Ætlar að óska eftir frekari upplýsingum

Framkvæmdastjórnin viti af kröfu hollenskra og breskra stjórnvalda á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta um greiðslur beint úr sjóðnum og hafi í hyggju að óska eftir frekari upplýsingum frá viðkomandi stjórnvöldum um það nákvæmlega á hvaða lagagrundvelli og forsendum málið er höfðað. Síðan segir í svarinu:

„Eins og áður kemur fram telur framkvæmdastjórnin að í samræmi við tilskipunina um innistæðutryggingar sé ætlast til þess að innistæðutryggingakerfi tryggi fulla og virka vernd fyrir innistæðueigendur upp að því lágmarki sem tryggt er. Þrátt fyrir að deilt hafi verið um það í fortíðinni hvort ríkið sjálft þurfi að koma að málum sem lánveitandi til þrautavara þá er deginum ljósara samkvæmt tilskipuninni að innistæðutryggingakerfum ber skylda til þess að bæta tjón innistæðueigenda og það á við óháð umfangi þeirra erfiðleika sem fyrir hendi eru.“

mbl.is