Kvartað undan nágrannanjósnum

Ýmsar gerðir eru af myndavélum.
Ýmsar gerðir eru af myndavélum. mbl.is/afp

„Einnig skal kvartari bara gjöra svo vel að framreiða hver önnur gögn sem styðja fullyrðingar hans um aðrar meintar „njósnir“ og vera ekki að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur og ljúga öllu illu uppá kvörtunarþola.“ Þetta segir maður sem kvartað hefur verið undan vegna meintra njósna.

Persónuvernd hefur nýverið fengið tvö mál til meðferðar sem snúa að meintum nágrannanjósnum. Í fyrra málinu kvartaði maður og móðir hans undan nágranna á hæðinni fyrir neðan þau í tvíbýli. Í kvörtuninni sagði að nágranninn tæki bæði upp hljóð og mynd í garðinum og fylgdi kvörtuninni ljósmynd af myndavél nágrannans. „Kvartað er yfir örsmárri felumyndavél sem tekur upp hljóð og mynd sem [B] hefur beint út í garð sem einungis íbúar efri hæðar nota, í þeim augljósa tilgangi að njósna um íbúa og þar með valda miklum óhug á heimili okkar.“

Maðurinn og móðir hans öfluðu sér einnig upplýsinga um búnaðinn sem nágranninn notaðist við og fullyrtu þau að meðal annars væri um hreyfiskynjara að ræða, þannig að myndavélin fari í gang ef einhver hreyfing er við hana.

Engin sönnun um njósnir

Persónuvernd sendi umræddum nágranna erindi vegna málsins. Í svari hans sagði að ljósmynd af myndavél á glugga á heimili hans, sem fylgt hafi kvörtuninni, hefði verið tekin í óleyfi. Þá segir að kvörtunin sé byggð á röklausum forsendum.

Þegar Persónuvernd hafði aftur samband við kvartendur var búið að taka búnaðinn úr glugganum. Maðurinn og móðir hans ítrekuðu engu að síðu kvörtunina og bentu á að mynd fylgdi henni. „[H]afi það aftur á móti ekki verið fullnægjandi þá hefur á annan tug vitna skrifað undir að hafa séð upptökubúnaðinn máli okkar til enn frekari staðfestingar.“

Var því öðru sinni óskað eftir viðbrögðum frá nágrannanum vegna kvörtunarinnar. Svaraði hann því þá til að maðurinn og móðir hans skuli „bara gjöra svo vel að framreiða hver önnur gögn sem styðja fullyrðingar hans um aðrar meintar „njósnir“ og vera ekki að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur og ljúga öllu illu uppá kvörtunarþola.“

Í niðurstöðu Persónuverndar segir að ekki liggi fyrir sönnun í málinu um að myndavélin hafi verið nýtt til leynilegrar, rafrænnar vöktunar og söfnunar persónuupplýsinga í tengslum við hana. Var því ekki hægt að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Myndaði óviðunandi umgengnishætti

Í síðara málinu kvartaði kona yfir því að nágranni hennar og íbúi í sama húsi hefði tekið ljósmyndir af henni og börnum hennar úti í garði við heimili þeirra, sett í möppu og farið með á fund Húseigendafélagsins. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að hann léti af þessari háttsemi en árangurslaust.

Persónuvernd spurði nágrannann út í þessa háttsemi og fékk þau svör að myndirnar sýni óviðunandi umgengnishætti kvartanda innanhúss sem utan.

Í niðurstöðu Persónuverndar segir að óumdeilt sé að teknar hafi verið myndir af dóttur kvartanda, sem og að teknar hafa verið ljósmyndir af munum í eigu kvartanda í þeim tilgangi að lýsa umgengni hennar um sameign. Í þessu felist vinnsla persónuupplýsinga.

Þá segir Persónuvernd: „Í gögnum málsins kemur fram að ágreiningur er um hvort brýnt og málefnalegt tilefni hafi verið til að taka umræddar ljósmyndir, sem og hverjar kringumstæður hafi verið að öðru leyti. Þar er um að ræða ágreining um staðreyndir máls sem Persónuvernd hefur ekki úrræði að lögum til að greiða úr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert