Lárus og Guðmundur sýknaðir

Guðmundur Hjaltason, Þórður Bogason, Óttar Pálsson og Lárus Welding.
Guðmundur Hjaltason, Þórður Bogason, Óttar Pálsson og Lárus Welding. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur hefur sýknað Lárus Welding og Guðmund Hjaltason í Vafningsmálinu svonefnda. Þar voru þeir Lárus og Guðmundur ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa  ákveðið og samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone 8. febrúar 2008.

Lánið til Milestone var veitt frá 8. febrúar til 11. febrúar 2008 en þá var það greitt upp með því að bankinn lánaði upphæðina til félagsins Vafnings og Vafningur greiddi bankanum upphæðina til baka.

Með lánveitingunni til Milestone voru þeir sagðir hafa misnotað aðstöðu sína og gerst sekir um umboðssvik. Sérstakur saksóknari fór fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi og fimm ára fangelsi yfir Guðmundi. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hins vegar hæfilega refsingu níu mánaða fangelsi og að sex þeirra væru bundnir skilorði.

Fyrir Hæstarétti krafðist vararíkissaksóknari að refsingin yrði þyngd. Hæstiréttur sýknaði þá hins vegar báða af öllum kröfum í málinu.

Frétt mbl.is: Krefst þyngri refsingar yfir Lárusi

mbl.is