Segir ásakanir Seðlabanka rangar

Umfangsmiklar húsleitir voru gerðar í starfsstöðvum útgerðarfyrirtækisins Samherja í mars …
Umfangsmiklar húsleitir voru gerðar í starfsstöðvum útgerðarfyrirtækisins Samherja í mars árið 2012. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Seagold, segir í bréfi sem birtist á heimasíðu Samherja að Seðlabanki Íslands (SÍ) hafi ekki fundið neitt athugavert í gögnum sem bankinn aflaði í húsleit hjá Samherja.

Hann segir SÍ hafa þurft að skila gögnunum, en þó aðeins eftir að Ríkissaksóknari og bankaráð SÍ hafi skorist í leikinn. „ Það er því fyrst núna, um tveimur árum eftir að sakir voru á okkur bornar, að við eigum möguleika á að tjá okkur um sakarefnið,“ segir Gústaf í bréfinu.

Hann segir einnig að starfsmenn bankans hafa „eytt gífurlegri vinnu og fjármunum í að reyna að finna – og jafnvel að búa til – brot vegna viðskipta Samherja og Seagold. Sú vinna hefði verið óþörf  ef menn hefðu þegið þá aðstoð sem var í boði og leitað til okkar eftir svörum.“

Síðar í bréfinu segir: „Ég vek sérstaka athygli á þeirri staðreynd sem nú blasir við: Fyrir um það bil ári lá það ljóst fyrir að ekkert var athugavert í viðskiptum Samherja við Seagold. Þetta sýnir svart á hvítu að fullyrðingar Seðlabanka Íslands fyrir dómstólum, um verulega undirverðlagningu og að gögn hafi fundist því til stuðnings, voru og eru rangar.“

„Það var mikið áfall þegar Seðlabanki Íslands ruddist inn í höfuðstöðvar Samherja á Íslandi fyrir um tveimur árum og útvarpaði því út um heim allan að húsleit stæði yfir í höfuðstöðvum fyrirtækisins, vegna ásakana um sölu sjávarafurða til dótturfyrirtækja á verulegu undirverði. 

Án þess að hafa nokkuð fyrir sér, hvorki gögn né rökstuðning, fullyrti Seðlabanki Íslands að Seagold hefði keypti fisk á verulegu undirverði frá Íslandi og að framkvæmdastjórn félagsins væri í raun íslensk.  Til að réttlæta húsleitina hélt bankinn því ranglega fram fyrir dómstólum  að við húsleitina hefðu fundist gögn sem styddu fullyrðingar bankans. Það vakti furðu mína og lögmanna Seagold í Englandi að Seðlabankinn þurfti aldrei að sanna mál sitt með gögnum. 

Seðlabankinn knúinn til að afhenda gögnin

Um alllangt skeið höfum við hjá Seagold reynt að fá rannsóknargögnin í hendurnar. Seðlabanki Íslands hefur ætíð neitað að verða við þeirri beiðni. Um tíma sögðu talsmenn bankans að þeir væru búnir að afhenda sérstökum saksóknara gögnin og hefðu engin gögn undir höndum lengur. 

Það var ekki fyrr en nýverið sem Ríkissaksóknari skarst í leikinn og úrskurðaði að það bæri að afhenda okkur rannsóknargögnin. Úrskurður frá Ríkissaksóknara einn og sér nægði þó ekki, heldur þurfti inngrip frá bankaráði Seðlabankans til þess að fá stjórnendur bankans til að framfylgja úrskurðinum og afhenda okkur gögnin. Það er því fyrst núna, um tveimur árum eftir að sakir voru á okkur bornar, að við eigum möguleika á að tjá okkur um sakarefnið. 

Seðlabankinn fann ekkert athugarvert

Eftir að hafa skoðað rannsóknargögnin er okkur ljóst að Seðlabankinn hefur eytt gífurlegri vinnu og fjármunum í að reyna finna – og jafnvel að búa til – brot vegna viðskipta Samherja og Seagold. Sú vinna hefði verið óþörf  ef menn hefðu þegið þá aðstoð sem var í boði og leitað til okkar eftir svörum. 

Niðurstaða rannsóknarinnar er skýr hvað varðar viðskipti Samherja og Seagold: 

„Það er því ályktun Seðlabanka Íslands af ofangreindri greiningu að ekki sé ástæða til að ætla að viðskipti Samherja hf. og Ice Fresh Seafood ehf. við Seagold Ltd. með þorskafurðir fari fram á öðrum kjörum en almennt tíðkast í viðskiptum óskyldra aðila.“ 

Ekkert athugavert fannst. Þess ber að geta að sala Samherja til Seagold nemur um 93% af útflutningi Samherja til tengdra aðila. 

Ég vek sérstaka athygli á þeirri staðreynd sem nú blasir við: Fyrir um það bil ári lá það ljóst fyrir að ekkert var athugavert í viðskiptum Samherja við Seagold. Þetta sýnir svart á hvítu að fullyrðingar Seðlabanka Íslands fyrir dómstólum um verulega undirverðlagningu og að gögn hafi fundist því til stuðnings voru og eru rangar. 

Dæmalaus framganga Seðlabanka Íslands

Framganga Seðlabanka Íslands í þessu máli er dæmalaus. Engan þarf að undra þótt þeir sem reka fyrirtæki séu nú þungt hugsi yfir því hvernig bankinn hefur gengið fram í þessu máli.  Á það við um fleiri mál? Við höfum lengi staðið í þeirri trú að Seðlabanki Íslands væri traust stofnum sem væri vönd að virðingu sinni. Í ljós hefur komið að svo er ekki. Þeir starfshættir sem bankinn hefur stundað eru slíkri stofnun ekki sæmandi. 

Augljóst er að tveggja ára rannsókn Seðlabankans á Seagold hefur valdið Seagold ómældum óþægindum og tjóni. Viðskiptavinir spyrja spurninga, efi vaknar og vantraust grefur um sig. Gögnum var vísvitandi haldið frá okkur allan þennan tíma og þannig komið í veg fyrir að við gætum borið hönd fyrir höfuð okkar. Loks eftir mikla eftirgangsmuni liggur fyrir að Seagold hefur engin lög brotið en með því að halda frá okkur gögnum kom bankinn í veg fyrir að við gætum upplýst viðskiptavini okkar um að húsleitin var tilefnislaus og sakargiftir á hendur Seagold úr lausu lofti gripnar. Það er grafalvarlegt mál. 

Stoltur af Seagold

Nú eru liðin 18 ár frá því undirritaður ásamt Samherja stofnaði sölufyrirtækið Seagold í Englandi. Fyrirtækið var upphaflega stofnað til að annast sölu á íslenskum fiski en nú í seinni tíð eru 60% af veltu Seagold vegna sölu á íslenskum sjávarafurðum. Umsvif Seagold eru mikil og hefur veltan undanfarin ár verið um 14 milljarðar íslenskra króna á ári. 

Við hjá Seagold höfum frá upphafi lagt okkur fram um að viðhalda góðum orðstír og starfa samkvæmt lögum. Ég er stoltur að því starfi sem við höfum unnið hér og af því verði sem við höfum fengið fyrir fiskafurðir og skilað til Íslands. 

Kæru Samherjar

Mér þótti rétt að skrifa ykkur þessar línur og greina frá því hvernig þetta ótrúlega mál horfir við okkur hjá Seagold. Það er von mín að þessu máli fari nú að ljúka svo við getum öll haldið áfram að ganga til verka eins og við erum vön, haldið merkinu á lofti og skapað verðmæti.“

Gústaf Baldvinsson, forstjóri Seagold.
Gústaf Baldvinsson, forstjóri Seagold. Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert