„Ég varð eiginlega orðlaus“

Adda María Jóhannsdóttir
Adda María Jóhannsdóttir

„Auðvitað setur maður markið hátt en það er ekki þar með sagt að maður nái því. Ég varð eiginlega orðlaus,“ segir Adda María Jóhannsdóttir framhaldsskólakennari en hún lenti í þriðja sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í gær. Adda hefur ekki áður boðið sig fram fyrir flokkinn. 

„Ég hef verið flokksbundin nokkuð lengi en ekki haft mig mikið frammi. Þetta framboð hefur blundað í mér frá síðustu sveitarstjórnarkosningum, þá var ég farin að velta þessu aðeins fyrir mér. Þá var ég að ljúka við meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og fannst ég ekki hafa tíma til þess en nú fannst mér tími til kominn að skella mér í þetta,“ segir Adda. 

Grasrótin tók henni vel

„Ég byrjaði þetta í haust, fór að sækja fundi og hitta grasrótina og hlutirnir þróuðust frekar hratt.“ Hún segir flokksmenn í Hafnarfirði hafa tekið henni vel. „Þegar fólk hefur trú á manni þá eflist maður enn frekar. Við í fjölskyldunni ákváðum að fyrst ég væri að fara í framboð á annað borð þá myndum við gera þetta af fullum krafti og reyna að ná árangri.“

Aðspurð hvaða málefni brenni á mönnum í Hafnarfirði nefnir Adda húsnæðismál, skólamál og atvinnumál. „Mér sýnist sem þessir þrír póstar verði fyrirferðarmiklir í kosningabaráttunni framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert