Leggur senn á sjötta tindinn

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir. Árni Sæberg

Fjallagarpurinn og ævintýrakonan Vilborg Arna Gissurardóttir leggur fljótlega af stað til Afríku þar sem hún mun klífa fjallið Kilimanjaro ásamt átta öðrum Íslendingum. Þetta er sjötti tindurinn af sjö sem hún hyggst klífa, en hún hefur síðustu mánuði klifið hæstu tinda fimm heimsálfa.

Verkefnið byggist á því að klífa hæsta fjallstind í hverri heimsálfu á tólf mánaða tímabili frá maí 2013 fram í maí 2014. Þetta eru tindarnir McKinley í Norður-Ameríku (6.194 metrar), Elbrus í Evrópu (5.642 metrar), Carstensz Pyramid í Ástralíu (4.884 metrar), Vinson Massif á Suðurskautslandinu (4.897 metrar), Aconcagua í Suður-Ameríku (6.960 metrar), Kilimanjaro í Afríku (5.895 metrar) og að lokum Everest í Asíu (8.848 metrar).

Toppaði með fimm norskum strákum

Vilborg Arna er tiltölulega nýkomin heim frá Suður-Ameríku en þar náði hún toppi Aconcagua. Ferðin gekk ekki áfallalaust fyrir sig. „Við fórum saman sex Íslendingar. Í 5.500 metra hæð varð einn hæðarveikur og sem fararstjóri ferðarinnar fylgdi ég honum í grunnbúðir,“ segir Vilborg Arna í samtali við mbl.is.

Í ljós kom að ferðalangurinn var með lungnabjúg og fór hann í læknisskoðun. Þar var honum ráðlagt að fara alla leið niður í byggð og fylgdi Vilborg Arna honum þangað. Voru þau tvo daga á leið til byggða úr 5.500 metra hæð. „Þarna var ég komin til byggða og gisti á hóteli, fór í sturtu og fékk mér að borða,“ segir Vilborg. Daginn eftir lagði hún aftur af stað á fjallið. Ferðafélagar hennar voru enn ofarlega í fjallinu og var hún því ein á ferð.

„Ferðafélagarnir urðu þó frá að hverfa, veðrið var slæmt og spáin ekki góð. Ég endaði því á því að reyna ein við toppinn. Í efstu búðum hitti ég kunningja mína frá Noregi og toppaði síðan með fimm norskum strákum,“ segir Vilborg Arna. Margir gera tilraun til að ná á topp fjallsins en margir verða frá að hverfa, líkt og ferðafélagar Vilborgar Örnu. „Fjallið er ekki mjög tæknilegt en það er gríðarlega hátt. Tæplega 40% þeirra sem ætla á toppinn ná upp,“ segir hún. „Þó að það séu einhverjir hnökrar, þá er þetta það sem maður lærir af.“

Fer til Afríku og hugsar um Everest

Íslenski hópurinn mun klífa tvö fjöll í Afríku. Annað mun hópurinn nota til undirbúnings og síðan liggur leiðin á Kilimanjaro. Aðspurð segir Vilborg Arna að fjallið sé ekki mjög tæknilegt og þá megi gera ráð fyrir að það verði heldur hlýrra en á hinum fjöllunum sem hún hefur klifið síðastliðna mánuði. „Hæðin fer oftast með þá sem reyna við tindinn en við munum ganga á fyrra fjallið til að aðlagast,“ segir Vilborg Arna.

Hópurinn flýgur til Afríku næstu helgi og fer vikan því að mestu leyti í undirbúning ferðarinnar. Vilborg Arna þarf þó ekki aðeins að undirbúa þessa ferð, heldur þarf hún einnig að huga að ferðinni á Everest. Þegar hún kemur aftur heim frá Afríku dvelur hún aðeins í þrjár vikur hér á landi áður en hún þarf að leggja í hann á Everest.

Hér er hægt að fylgjast með ferðalögum Vilborgar.

Vilborg Arna og Sigurður Bjarni Sveinsson, ferðafélagi hennar, á tindi …
Vilborg Arna og Sigurður Bjarni Sveinsson, ferðafélagi hennar, á tindi Denali í Norður-Ameríku.
Vilborg Arna með íslenska fánann á Suðurpólnum.
Vilborg Arna með íslenska fánann á Suðurpólnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert