Mætti ekki fórnarlömbum sínum

Sigurður Kárason
Sigurður Kárason mbl.is/Rósa Braga

Sigurður Kárason, sem ákærður er fyrir að hafa svikið á annað hundrað milljónir króna af sextán manneskjum, mætti sjálfur ekki til aðalmeðferðar í málinu sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fórnarlömb hans komu hins vegar eitt af öðru og greindu frá samskiptum sínum við Sigurð. Flest þeirra báru sig aumlega enda illa svikin og sum milljónum fátækari.

Áætlað er að aðalmeðferð í málinu standi í þrjá daga og ljóst var við upphaf hennar að Sigurður hygðist nýta sér þann rétt sinn að svara ekki spurningum um sakarefnið. Dómari í málinu sagði það gott og blessað en það væri verra að Sigurður væri ekki mættur, sem honum væri skylt lögum samkvæmt. Verjandi Sigurðar sagðist vona að hann mæti fyrir dóminn síðar í dag.

Flest eru ákæruatriðin keimlík. Sigurður vatt sér upp að bláókunnugu fólki, vann traust þess og trúnað og fékk það til að greiða sér tiltekna upphæð til að losa gjaldeyri út úr banka. Hann bað svo sífellt um frekari greiðslur gegn loforði um að borga til baka með vöxtum. Einhverjar endurgreiðslur komu til en þær hrukku skammt.

Flestir lýstu Sigurði sem afar sannfærandi en einnig mjög ýtnum. Hann hafi virkað trúverðugur og rökstutt mál sitt með bréfum frá lögmönnum og bankastofnunum. Einhverjir viðurkenndu að hafa trúað honum í blindni og að þeir hefðu ekki haft hugmynd um það hvernig hann hygðist tryggja endurgreiðslu.

Þá kom fram að Sigurður blekkti fórnarlömb sín til að greiða inn á bankareikning hjá öðrum fórnarlömbum, en þannig róaði hann þá sem voru orðnir ókyrrir.

Eins og komið hefur fram á mbl.is þá neitar Sigurður alfarið sök í málinu.

Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegið.

Frétt mbl.is: Sviðin jörð svikara

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert