Ungmennum í vanda veitt aðstoð

Meðferðarheimili
Meðferðarheimili Elín Esther Magnúsdóttir

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, vill ráðast í gagngerar kerfisbreytingar til að tryggja börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir, fíkniefnavanda eða fjölþætt vandamál viðeigandi úrræði. Ráðherra hefur ákveðið að framkvæmdaáætlun í barnavernd verði hluti nýrrar fjölskyldustefnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðherra.

Þingsályktun um gildandi framkvæmdaáætlun í barnavernd rennur út við sveitarstjórnarkosningarnar í vor og mótun nýrrar áætlunar stendur fyrir dyrum. í velferðarráðuneytinu er nú unnið að mótun stefnu og aðgerðaráætlunar í málefnum barna og barnafjölskyldna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eygló Harðardóttir  hefur nú ákveðið að samþætta vinnu við gerð nýrrar framkvæmdaáætlun í barnavernd vinnunni við mótun fjölskyldustefnunnar.

Eygló segir í tilkynningu ákvörðun sína byggjast á nauðsyn þess að endurskipuleggja þjónustu og úrræði stofnana sem eiga að fást við vanda barna og ungmenna sem glíma við fjölþætt vandamál geðraskana og fíkniefnaneyslu eða skyld fjölþætt vandamál:

„Vissulega er þetta flókið viðfangsefni en sú gagnrýni sem heyrist ítrekað þess efnis að kerfið sé þungt í vöfum, flókið og mæti ekki nógu vel þörfum þeirra barna og ungmenna sem stríða við erfiðleika er að mörgu leyti skiljanleg og réttmæt,“ segir ráðherra í tilkynningu

Flækjustigið allt of mikið

Eygló segir flækjustig stofnanakerfisins eins og það er uppbyggt allt of mikið og standa fyrir þrifum þjónustu við þau börn og ungmenni sem hennar þurfa með og valda einnig vanda hjá þeim sem starfa innan kerfisins. Ráðherra segir umræðu um úrræði, kerfið sjálft og gagnrýni á það snúast mjög mikið um vanda barna og ungmenna sem eru í neyslu. Þetta sé þó oft aðeins hluti af vandanum og geti hvort heldur verið afleiðing eða orsök. Geðraskanir, félagsleg vandamál, brotin heimili eða erfiðleikar í skóla komi oft einnig við sögu og því sé um að ræða fjölþættan vanda:

Til að lýsa flækjustiginu þá varða þessi mál verkefnasvið fjögurra ráðherra, þ.e. ráðherra félagsmála, heilbrigðismála, menntamála og ráðherra dóms- og fangelsismála. Ekki nóg með það, sveitarfélögin gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki þar sem ábyrgð á félagsþjónustu og störfum barnaverndarnefnda er hjá þeim. Þessu til viðbótar annast einkaaðilar og félagasamtök rekstur ýmissa úrræða og þjónustu við börn og ungmenni í vanda og oft er stofnað til hennar vegna augljósrar vöntunar á úrræðum hjá opinbera kerfinu. Ríkið veitir svo rekstrarfé, oft í formi styrkja, til að annast þjónustu án þess að fyrir liggi nákvæmlega hvað eigi að felast í henni né hver er kaupandi þjónustunnar eða ber ábyrgð á eftirliti með henni.

Eygló segir að í orðum sínum felist ekki gagnrýni á frjáls félagasamtök og einkaaðila, heldur miklu frekar slælega stjórnun hins opinbera og skort á heildarsýn:

Ég tel alveg nauðsynlegt og hef ákveðið að samþætta þessa vinnu og gera framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum að hluta fjölskyldustefnunnar. Til þess þarf að kalla til þá sérfræðinga sem koma að þessum mikilvæga, viðkvæma og víðfeðma málaflokki, hvort sem verkefnin heyra undir mismunandi ráðuneyti eða sveitarfélögin,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert